Þunnur þrettándi í Hallgrímskirkju

Davíð Þór Jónsson og Skúli Sverrisson impróvíseruðu í Hallgrímskirkju á Reykjavík Midsummer Music laugardaginn 20. Júní.

2 stjörnur

Ég fór á kammerhátíðina Reykjavík Midsummer Music um helgina. Flytjendurnir voru allir í fremstu röð og verkefnavalið var einstaklega áhugavert. Víkingur Heiðar Ólafsson var listrænn stjórnandi hátíðarinnar og ástríða hans og þekking á tónlist skein í gegn. Eitt af því sem var svo skemmtilegt við hátíðina var að bæði voru þarna misgömul tónverk sem hafa staðist tímans tönn, og svo fékk tilraunamennska veglegan sess í dagskránni. Auðvitað heppnast tilraunir ekki alltaf, en lífið væri svo sannarlega aumt ef maður þyrði aldrei að taka áhættu.

Á laugardaginn komu tveir snillingar fram í Hallgrímskirkju, þeir Skúli Sverrisson á rafmagnsbassa og Davíð Þór Jónsson píanóleikari og altmuligmand. Davíð spilaði á stærsta hljóðfæri landsins, klaisorgelið svonefnda. Báðir tónlistarmennirnir eru vanir því að leika af fingrum fram, og það var einmitt það sem þeir ætluðu að gera nú. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, það er ekki langt síðan Davíð og fiðluleikarinn Pekka Kuusisto göldruðu fram þvílíkan tónaseið að lengi verður í minnum haft.

En spuninn í Hallgrímskirkju var þunnur þrettándi. Upphafshendingarnar í orgelinu voru ekki bitastæðar og þær urðu aldrei að neinu markverðu. Bassaleikur Skúla var líka undarlega einhæfur, aðalega einhverskonar drunur sem urðu fljótt leiðigjarnar.

Hugsanlega hafði Davíð Þór ekki gefið sér nægilegan tíma til að kynnast orgelinu og möguleikum þess. Þeir eru gríðarlega fjölbreyttir, það eru ekki orðin tóm að orgelið (og þá sérstaklega voldugt orgel Hallgrímskirkju) er kallað drottning hljóðfæranna. Orgelleikarar eru almennt þjálfaðir í að leika af fingrum fram; ég hef heyrt undursamlega spuna í þarna í kirkjunni. Spuninn nú var hinsvegar óttaleg flatneskja; fæstar af hinum fjölmörgu röddum orgelsins fengu að njóta sín. Og rödd bassans hafði lítið að segja. Þetta voru vonbrigði.

Niðurstaða:

Tveir frábærir listamenn náðu aldrei almennilega saman og spuninn sem þeir báru á borð einkenndist af hugmyndafátækt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s