Kastalinn sveif yfir lönd

Verk eftir Helga Rafn Ingvarsson í flutningi Matthildur Önnu Gísladóttur, Guðnýjar Jónasdóttur, Jonathan Larson, Helgu Þóru Björgvinsdóttur, Péturs Björnssonar og Kristínu Þóru Pétursdóttur. Kaldalón í Hörpu sunnudaginn 6. september.

4 stjörnur

Ungur maður sem minnti á Al Pacino þegar hann lék í fyrstu myndinni um Guðföðurinn, tók sér stöðu fyrir framan áheyrendur í Kaldalóni í Hörpu á sunnudaginn. Þetta var Helgi Rafn Ingvarsson sem stundar doktorsnám í tónsmíðum við Guildhall skólann í London. Tónleikar voru að hefjast þar sem átti að flytja fimm tónsmíðar eftir hann.

Kynningin var nokkuð sérstök. Það sem lesa má um ný tónverk í tónleikaskrám er stundum afar þurrt og akademískt. Þetta eru torræðar lýsingar á framsögu og leiðarstefjum, tónavef og klasahljómum, fúgum og einhverju þaðan af meira óskiljanlegu. Venjulegur leikmaður skilur fæst af því. En Helgi setti tónlistina sína í allt annað samhengi. Hann bjó til fantasíu, sagði sögu af kastala sem einhver kom inn í, setti í gang, lét lyftast upp í himinn og fékk til að svífa yfir lönd. Ýmislegt bar fyrir augu og eyru, og tónlistin fjallaði um það. Þessi myndræna sena gerði að verkum að tónsmíðarnar voru auðskiljanlegar. Það var ekkert kuldalega fræðilegt við þær, þvert á móti gekk maður inn í ævintýraheim þar sem hver einasta tónahending hafði merkingu.

Verkin á tónleikunum voru fyrir ólíkar hljóðfærasamsetningar, fiðlu, selló, lágfiðlu eða píanó. Sellóið og píanóið var mest áberandi. Guðný Jónasdóttir spilaði á sellóið en Matthildur Anna Gísladóttir á píanóið. Sú fyrrnefnda lék tjáningaríkt og píanóleikurinn var líflegur. Hinir hljóðfæraleikararnir voru líka með sitt á hreinu.

Það verður að segjast að ef þessi tónlist hefði verið flutt fyrir 20 árum, hefði Helgi verið krossfestur. Þarna voru laglínur og einfaldur taktur, meira að segja endurtekningar. Slíkt þekktist ekki þá, enda var nútímatónlist hötuð af almenningi. Sem betur fer er það ekki lengur. Helgi mun hafa byrjað tónlistarferilinn í söngnámi, sem e.t.v. skýrir áhersluna á hið lagræna í tónlist hans. Laglínurnar voru einmitt áberandi grípandi, en þó ekki eins og í popplagi. Það var ekkert banalt við tónlistina; allskonar sniðug blæbrigði komu við sögu og frásögnin var spennandi og kom oft á óvart.

Tónlist Helga hafði sterk höfundareinkenni. Eins og áður segir var tónmálið nokkuð hefðbundið, en ekki þannig að verkin væru einhver klisja. Helga lá mikið á hjarta, og hann fór sínar leiðir að koma meiningu sinni til skila. Ramminn kallaðist á við fortíðina, en andagiftin var alveg einstök. Það verður spennandi að fylgjast með þessu hæfileikaríka tónskáldi er fram líða stundir.

Niðurstaða:

Falleg tónlist, í senn hefðbundin og frumleg.

One thought on “Kastalinn sveif yfir lönd

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s