Fumlaust, óheft, leikandi létt

Verk eftir Mozart, Schumann og Jórunni Viðar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stjórnandi: Cornelius Meister. Einleikari: Arngunnur Árnadóttir. Fimmtudagur 10. september.

4 stjörnur

Rétt eins og Hafnfirðingabrandarar þá er til fullt af klarinettubröndurum. Hér er einn: Hver er munurinn á klarinettu og lauk? Svar: Enginn grætur þegar þú skerð klarinettuna niður í litla bita. Annar: Hvað kallarðu hóp klarinettuleikara í heitum potti? Grænmetissúpu. Sá þriðji: Hverju kastarðu til drukknandi klarinettuleikara? Klarinettutöskunni.

Ég veit ekki afhverju klarinettuleikarar eru svo forsmáðir að fólki er ráðlagt að bjarga þeim EKKI ef þeir eru að drukkna. Ég veit bara að ég myndi henda mér út í ef Arngunnur Árnadóttir klarinettuleikari væri í slíkum aðstæðum. Ekki nema til að fá að heyra hana spila Mozart aftur. Einleikur hennar með Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hún spilaði konsertinn í A-dúr var með því fegursta sem ég hef lengi heyrt.

Það var eitthvað ótrúlega ferskt við túlkunina. Hægi kaflinn var hrífandi einlægur, unaðslega mjúkur og dreymandi. Hröðu kaflarnir voru sömuleiðis fumlausir, óheftir og leikandi léttir. Hljómsveitin spilaði líka af aðdáunarverðri fagmennsku undir öruggri stjórn Cornelius Meister. Hljómsveitarleikurinn var notalega blátt áfram og tæknilega nákvæmur. Þetta var dásamlegur flutningur.

Tvö önnur verk voru á dagskránni. Annað var stutt og nefndist Eldur eftir Jórunni Viðar. Tónlistin skartaði gripandi laglínum en virkaði nokkuð sundurlaus. Enda var hún samin sem balletttónlist, átti greinilega að falla að tiltekinni atburðarrás. Það væri gaman að heyra Eld og sjá dansinn við hann. Tónlistin hefur verið leikin áður á tónleikum, en dansinn hefur vantað. Án hans er verkið aðeins skugginn af sjáfu sér.

Meira var varið í Vorsinfóníu Schumanns. Þetta er fyrsta sinfónía tónskáldsins, kölluð svo vegna þess hve glaðleg hún er. Schumann þjáðist af geðhvarfasýki. Þegar hann var í maníu samdi hann og samdi, stundum á undraskömmum tíma. Árið 1841 var hamingjuríkur tími í lífi hans og hann skutlaði sinfóníunni á blað á fjórum dögum. Hljómsveitin lék prýðilega undir stjórn Meisters, túlkunin var full af ákefð. Strengirnir voru breiðir og safaríkir, blásararnir pottþéttir. Heildarmyndin var kraftmikil og litrík, akkúrat eins og verkið átti að hljóma. Maður hálfpartinn dansaði út í náttmyrkrið á eftir.

Niðurstaða:

Frábær Mozart þar sem Arngunnur Árnadóttir fór á kostum. Schumann kom líka vel út.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s