Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Bach, Handel, Albinoni og Mozart. Einleikari: Baldvin Oddson. Stjórnandi: Matthew Halls. Eldborg, Harpa. Fimmtudaginn 3. desember
4 stjörnur
Hér í gamla daga skiptist fólk í andstæðar fylkingar eftir því hvort það fílaði klassíska tónlist eða ekki. Það var slegist um það á síðum dagblaðanna. Mörgum fannst ótækt hve mikið rými klassíkin fékk í Ríkisútvarpinu. Einn greinarhöfundar skammaðist yfir útsendingu sinfóníugargs. Hann talaði um Brandara-konsert eftir Jóhann Sebastían Bjakk.
Bjakk var einmitt á dagskránni í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Nánar tiltekið sjötti Brandenborgarkonsertinn eftir Bach. Þar var leikið á sjö hljóðfæri: Tvær víólur, þrjú selló, sembal og bassa. Þetta var óvanaleg hljóðfærasamsetning. Segja má að það hafi vantað toppinn í hljóminn, þ.e. fiðlurnar. Tónsmíðin fékk á sig sérkennilegt yfirbragð. Flutningurinn var þó ekki alveg nógu góður. Sumir víólutónarnir voru dálítið ónákvæmir. Það var ekki almennilegur fókus í túlkuninni. Heildarsvipurinn var losaralegur; sennilega hefði mátt æfa verkið meira. Sjálfsagt var konsertinn það erfiðasta á dagskránni. Bara sjö raddir gerðu tónlistina nakta. Minnstu misfellur heyrðust auðveldlega.
Annað var mun betra. Hluti úr Vatnatónlist Handels hefði reyndar mátt vera tærari í málmblæstrinum. Almennt talað var hún nokkuð hrá, styrkleikajafnvægið hefði mátt vera nákvæmara. En Hátíðarsvíta úr sinfóníum Bachs í útsetningu stjórnandans, Matthew Halls, var prýðilega flutt. Hún var hátíðleg og fjörug í senn. Tæknilega séð var hún örugg, samspilið var akkúrat, hljómurinn breiður og fallegur.
Það var þó fyrst og fremst tvennt sem gerði að verkum að tónleikarnir fá fjórar stjörnur. Annarsvegar var það einleikarinn á trompet, hinsvegar sinfónía eftir Mozart. Einleikarinn hét Baldvin Oddson og var í aðalhlutverkinu í konsert í B-dúr op. 7 nr. 3 eftir Tomaso Albinoni. Hann er ungur að árum en spilaði eins og engill. Leikur hans var ótrúlega hreinn og fallega mótaður. Hann var fullkomlega áreynslulaus og vandaður. Hröð tónahlaup voru fumlaus og jöfn, trillur svo skýrar að maður dáðist að. Baldvin á eftir að ná langt á tónlistarbrautinni, það er alveg ljóst.
En með fullri virðingu fyrir Albinoni, Handel og Bach, þá tók Mozart þá alla í nefið. Albinoni er vissulega minniháttar tónskáld, en Bach og Handel ekki. Samt komust þeir ekki með tærnar þar sem Mozart hafði hælana. Tónlist hans er svo alltumlykjandi og dásamleg, hún er margbrotnari og miklu meira lifandi. Snilldin er alger, fágunin óviðjafnanleg. Á efnisskránni var hin svonefnda Haffnersinfónía og hljómsveitin spilaði hana einkar glæsilega. Sagt hefur verið að Guð sé í smáatriðunum og hér voru smæstu blæbrigði afar fagurlega mótuð. Heildarsvipurinn var stórbrotinn og tignarlegur, en samt unaðslega gleðiþrunginn. Þetta var innblásinn flutningur.
Niðurstaða:
Haffnersinfónía Mozarts var snilld og einleikur Baldvins Oddsonar var magnaður.