Sinfóníutónleikar
3 stjörnur
Verk eftir Ravel, Tsjajkovskíj og Beethoven í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð í Reykjavík. Stjórnandi: Valdimir Ashkenazy. Einleikari: Jean-Efflam Bavouzet.
Eldborg í Hörpu, miðvikudaginn 25. maí
Segja má að aukalagið á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á miðvikudagskvöldið hafi verið aðalatriði tónleikanna. Einleikarinn, Jean-Efflam Bavouzet var búinn að spila G-dúr konsertinn eftir Ravel með þvílíkum látum að það var eins og að hann væri að keppa í spretthlaupi á Ólympíuleikunum. En það var ekki nóg. Eftir töluverð fagnaðarlæti og uppklapp settist hann aftur við flygilinn og byrjaði að spila. Hann gerði það án þess að kynna lagið á undan og ég verð að viðurkenna að ég kannaðist ekki við það. Leikur Bavouzet var flottur. Hann spilaði ógnarhröð tónahlaup upp og niður, og tók þvílík heljarstökk eftir hljómborðinu að maður saup hveljur.
Á eftir spurði ég fullt af fólki hvaða lag þetta hefði verið. Enginn hafði hugmynd um það en voru forvitnir. Loks kom í ljós að þetta var Konsertetýða (Etude de concert) eftir Gabriel Pierne, sem var franskur og var uppi á árunum 1863 til 1937. Hann er ekki með þeim þekktari en þessi etýða hans var skemmtileg, lifandi og spontant. Hún var dásamleg í meðförum píanóleikarans.
Talandi um árið 1937 þá er það einmitt fæðingarár Vladimirs Ashkenazy, sem var stjórnandinn á tónleikunum. Hann fylgdi einleikaranum af öryggi og festu, en samt var leikur Bavouzet svo hraður að vandasamar tónahendingar og strófur allskonar blásturshljóðfæra voru stundum ónákvæmar. Það var lítið um kræsilega uppbyggingu í túlkuninni. Allt var lagt á borðið strax. Hugsanlega hefði mátt leika ögn hægar, það hefði gert flutninginn meira spennandi á köflum. Það er ekkert voðalega djúsí þegar heill konsert er fátt annað en endalausir hápunktar og lokahnykkir. Þá verður útkoman í rauninni fremur flöt. Engu að síður verður að segja að leikur Bavouzets var ótrúlega glæsilegur. Tæknin var óaðfinnanleg, en túlkunin orkaði nokkuð tvímælis.
Tvö önnur verk voru á dagskránni, hinn svonefndi fantasíuforleikur Rómeó og Júlía eftir Tsjajkovskíj og Sveitasinfónía Beethovens. Sá fyrrgreindi var frábær. Hann var í senn viðkvæmur og rómantískur, en líka þrunginn ákefð og ástríðu. Hljómsveitin spilaði afar vel, af svo mikilli fagmennsku að það var unaðslegt áheyrnar. Allir bestu eiginleikar Ashkenazys komu hér berlega fram: Næm tilfinning fyrir atburðarrás í tónlistinni, fókuseruð framvinda og agi, sprengikraftur á akkúrat réttu augnablikunum, hvergi dauður punktur. Þetta var snilld.
Furðulegt nokk þá var Sveitasinfónia Beethovens ekki líkt því eins sannfærandi. Að upplaginu til er hún einkar áhrifamikil hugleiðing um náttúruna, en hér var túlkunin ekkert sérstaklega djúp. Það var allt slétt og fellt á yfirborðinu, en undiraldan var víðsfjarri. Leikurinn var vissulega flottur, en framvindan var máttlaus, það gerðist ósköp lítið í tónlistin. Sinfónían komst aldrei á flug og svo var hún bara allt í einu búin. Þetta voru vonbrigði.
Niðurstaða:
Ofsafengin túlkun á píanókonsert Ravels var einum of þótt hún væri glæsileg, Tsjajkovskíj var frábær en Beethoven síðri.