Hefði mátt hljóma betur

Píanótónleikar

2 stjörnur

Verk eftir Yinghai Li, Alexander Tsérepnín, Bohuslav Martinu, Alexina Louie, Mozart og Chopin. David Witten lék.

Kaldalón í Hörpu

laugardaginn 24. september

Kínversk tónlist eða verk sem voru innblásin af kínverskri menningu voru á dagskránni á tónleikum píanóleikarans David Witten í Kaldalóni í Hörpu á laugardagskvöldið. Tilefnið var dagur hinnar kínversku Konfúsíusarstofnunar, en tónleikarnir voru haldnir á hennar vegum.

Witten hóf leik sinn á tónsmíðinni Flauta og tromma við sólarlag eftir Yinghai Li. Þar er efniviðurinn sóttur í forna laglínu sem venjulega er spiluð á pipa, kínverskt strengjahljóðfæri. Tónlistin var fallega framandi. Hún grundvallaðist á seiðandi hljómum og fjölbreyttum, hröðum tónahendingum sem mynduðu áhugavert mynstur. Witten lék þetta ágætlega, leikurinn var skýr og markviss, gæddur rétta andrúmsloftinu.

Píanistinn spilaði þó ekki utan að eins og vaninn er á svona tónleikum. Ung kona sat við hlið hans og fletti blöðum. Hún virtist ekki sérlega læs á nótur. Ýmist þurfti Witten að kinka kolli til að gefa henni merki um að nú þyrfti að fletta, eða þá að hún hentist óumbeðin upp úr sætinu á elleftu stundu og fletti, nánast með írafári. Þetta var afar truflandi. Athyglin fór af tónlistinni og á flettarann; myndi hún ná að fletta næstu blaðsíðu í tæka tíð?

Þrjár Konsertetýður eftir Alexander Tsérepnín komu ekki eins vel út hjá Witten. Tsérepnín var rússneskur, en var heillaður af kínverskri menningu. Etýðurnar bera þess merki. Hér var leikurinn varfærnislegur og sýndi ekki mikla tækni. Tónlistin átti að vera glæsileg, en var það ekki. Sérstaklega var síðasta etýðan klaufaleg. Hún byggðist aðallega á hröðum, síendurteknum nótum sem ekki náðu allar í gegn í spilinu.

Fimmti dagur fimmta mánans eftir tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu, sem vísar til hátíðisdags í Kína, var ekki heldur spennandi í meðförum Wittens. Þetta er samt að upplagi draumkennd, sjarmerandi tónlist. Hér var áslátturinn fremur harður og munúðarfullt andrúmsloftið skilaði sér því ekki almennilega í túlkuninni.

Síðast fyrir hlé var tónsmíð að nafni Minningar í fornum garði eftir kanadískt samtímatónskáld af kínverskum ættum, Alexinu Louie. Tónlistin var áhugaverð. Hún samanstóð af þéttofnum blæbrigðum þykkra hljómaklasa. Einnig lék píanistinn beint á bassastrengi píanósins með vinstri hendinni, þ.e. ekki með hömrunum. Witten gerði þetta vel, hljómarnir voru fagurlega mótaðir og hraðar tónahendingar snyrtilegar.

Heldur syrti í álinn eftir hlé. Þá var á dagskránni kunnuglegri tónlist. Þetta var B-dúr sónatan K 333 eftir Mozart og Noktúrna í H-dúr op. 32 nr. 1 og fyrsta Ballaðan í g-moll eftir Chopin. Sumt í Mozart var reyndar ekki slæmt, hægi kaflinn var t.d. notalega ljóðrænn. En almennt voru tónahlaup ekki nægilega jöfn og rytminn var stundum svo óstöðugur að maður varð hálf sjóveikur. Auk þess voru tilburðir flettarans ekki til að bæta.

Noktúrnan eftir Chopin var hinsvegar prýðilega flutt, full af söng og skáldskap. En Ballaðan var beinlínis illa spiluð. Tæknin vafðist fyrir píanóleikaranum, röskari kaflar voru ójafnir og stirðir; fyrir bragðið vantaði allt flæði í túlkunina. Það var hreinlega eins og Witten réði ekki við verkið. Óneitanlega var þetta slæmur endir á tónleikunum.

Niðurstaða:

Sumt var gott en fleira var vont á dagskránni.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s