Starfsárið byrjar vel

Kammertónleikar

4 stjörnur

Camerarctica flutti verk eftir Hasse, Fasch og Mendelssohn.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 25. september

Kammermúsíkklúbburinn hóf starfsárið sitt á sunnudaginn var. Að þessu sinni kom Camerarctica fram, hópur sem hefur verið áberandi í tónlistarlífinu síðan hann var stofnaður árið 1992.

Á efnisskránni voru m.a. verk eftir tónskáld sem fæstir muna eftir í dag, en voru fræg á sínum tíma. Fyrra tónskáldið var Johann Adolf Hasse, fyrst og fremst þekktur sem óperutónskáld. Á tónleikunum voru fluttar eftir hann tvær tríósónötur. Tríósónata samanstendur af tveimur „einleikshljóðfærum“ og svokallaðri fylgirödd, þ.e. undirspili, sem er þá þriðja röddin; þaðan kemur orðið „tríó.“ Þó eru a.m.k. tveir hljóðfæraleikarar sem ávallt mynda fylgiröddina, yfirleitt selló- og semballeikari. Hér voru það Sigurður Halldórsson sem spilaði á selló og Halldór Bjarki Arnarson á sembal, en jafnframt kom Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari við sögu. Einleikararnir voru annarsvegar Peter Tompkins á óbó og Hildigunnur Halldórsdóttir á fiðlu, hinsvegar Bryndís Pálsdóttir á fiðlu og Eydís Franzdóttir á óbó. Flutningurinn var prýðilegur, rytmískur og lifandi, samspilið öruggt, túlkunin full af sjarmerandi innileika. Tónlistin rann ljúflega niður.

Hitt tónskáldið sem vísað var til hér að ofan var Johann Friedrich Fasch. Á dagskránni var sónata í d-moll eftir hann sem nokkrir af áðurnefndum hljóðfæraleikurum fluttu. Einnig hér var leikurinn fallegur, óbóin tvö voru notalega samhljómandi, þó ólík væru. Leikur Peters var kraftmeiri og hvellari; Eydís var mýkri og passífari. Þegar þau spiluðu saman mynduðu þau sannfærandi heild þar sem mikil breidd í litbrigðum raddanna var áberandi. Leikur Kristínar Mjallar var auk þess ljóðrænn og hlýlegur og fylgiröddin pottþétt.

Eftir hlé var fluttur Strengjakvartett nr. 4 í e-moll eftir Mendelssohn. Þær Hildigunnur og Bryndís léku á fiðlur, Sigurður á selló og Svava Bernharðsdóttir á víólu. Leikurinn var afar glæsilegur. Hann var fíngerður og fágaður, en samt fullur af rómantískum eldmóði sem fór tónlistinni einkar vel. Samspilið var mjög gott, styrkleikajafnvægið eins og best verður á kosið. Þetta var glæsileg byrjun á starfsári Kammermúsíkklúbssins.

Niðurstaða:

Fantagóðir tónleikar með fínum hljóðfæraleik og skemmtilegri tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s