5 stjörnur
Píanótónleikar
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari flutti etýður eftir Philip Glass. Með honum kom fram Strokkvartettin Siggi.
Eldborg í Hörpu
föstudaginn 24. mars
Árið 1955 kom út bókin The Agony of Modern Music eftir tónlistargagnrýnandann Henry Pleasants. Þar var tónlist margra samtímatónskálda harðlega gagnrýnd. Pleasants taldi þau á villigötum, tónlistin sem þau semdu væri svo flókin og óaðgengileg að almenningur vildi ekkert með hana hafa. Eitthvað nýtt þyrfti að koma til og Pleasants hélt því fram að framtíðin lægi í djassinum.
Nokkrum árum eftir að bókin kom út leit þó önnur tónlistarstefna fyrst dagsins ljós. Hún var síðar kölluð mínimalismi. Þar er yfirleitt sama tónahendingin endurtekin í sífellu en þó með smávægilegum breytingum, auk þess sem ný stef bætast stundum við. Þessari tónsmíðaaðferð hefur verið líkt við byggingarlist. Tónahendingin er eins og múrsteinn; hann er ekki merkilegur í sjálfu sér, en þegar hann er margfaldaður og steinunum raðað upp á tiltekinn hátt verður til heil dómkirkja. Endurtekning hins smáa skapar hið stóra og volduga.
Aðferðin er frábrugðin fagurtónlistinni sem áður þekktist. Sú músík byggðist yfirleitt á margþættri úrvinnslu hugmyndanna sem settar voru fram í upphafi tónverksins. Allt gekk út á framvindu, tónlistin var eins og skáldsaga þar sem stöðugt var eitthvað að gerast. Einföld endurtekning var hinsvegar litin hornauga, hún var talin merki um andlega fátækt.
Mínímalísk tónlist eftir bandaríska tónskáldið Philip Glass var á efnisskránni á tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara í Hörpu á föstudagskvöldið. Þetta voru útgáfutónleikar, því nýlega kom út hljómdiskur þar sem Víkingur spilar þessa tónlist. Diskurinn er gefinn út af Deutsche Grammophone, en Víkingur er kominn á samning hjá fyrirtækinu. Það er engin smávegis upphefð.
Á tónleikunum var eingöngu tónlist eftir Glass ef frá er talið aukalagið eftir Wagner, sem Víkingur sagði – í gríni – að hefði verið fyrsti mínímalistinn. Hann meinti að Wagner notaði gjarnan það stílbragð að endurtaka sömu hendinguna uns tónlistin rís upp í ofsafenginn hápunkt. Munurinn á Wagner og mínímalistunum er fyrst og fremst tóntegundaskiptin, þau eru tíð hjá þeim fyrrnefnda en ekki hjá hinum.
Tónlistin eftir Glass á tónleikunum samanstóð af etýðum. Etýða merkir fingraæfing en hefur fengið miklu víðtækari skírskotun hjá allskonar tónskáldum. Svo er um Glass og það var eitthvað seiðandi við etýðurnar hans. Einfaldleikinn getur vissulega virkað dálítið ferkantaður, en styrkur hans er hversu beinskeyttur hann er. Endurtekningin er sennilega upphaflega tónlistarformið, bæði sagnfræðilega og líka í líffræðilegum skilningi. Okkar fyrsta tónlistarupplifun er að heyra hjartslátt móður okkar á meðgöngunni. Slík endurtekning er alltaf dáleiðandi og etýður Glass höfðu einmitt þannig áhrif.
Tónleikarnir voru magnaðir. Víkingur spilaði etýðurnar oftast einn, en á tímabili lék Strokkvartettinn Siggi með honum. Sumar etýðurnar eru til í fleiri en einnig útgáfu, og kom kvartettinn þá til sögunnar. Víkingur spilaði af einstakri hljómfegurð, hver einasti tónn var mótaður af innileika og smekkvísi. Strokkvartettinn lék líka af alúð og tæknilegum yfirburðum.
Á milli atriða sagði Víkingur frá tónlistinni og kynnum hans af tónskáldinu og gerði það afar skemmtilega. Hann hefur fallega framkomu og þægilega útgeislun, enda voru tónleikagestir yfir sig hrifnir; undirritaður var þar á meðal.
Niðurstaða:
Stórfenglegir tónleikar með dáleiðandi tónlist.