3 stjörnur
Djasstónleikar
Sara Blandon og Sara Mjöll Magnúsdóttir fluttu lög sem voru flest eftir konur á Freyjujazzi.
Listasafn íslands
þriðjudaginn 4. júlí
Freyjujazz er sniðug tónleikaröð. Tónleikarnir eru haldnir í hádeginu á þriðjudögum í Listasafni Íslands og standa í hálftíma. Þeir byrja klukkan korter yfir tólf, og á eftir er hægt að fá sér að borða í safninu. Það er notalegt að kúpla sig út úr amstri dagsins í smá stund og hverfa inn í aðra veröld þar sem allt er svo gott. Djassinn er nefnilega bráðhollur eins og dr. William Klemm, prófessor í taugavísindum, heldur fram í tímaritinu Psychology Today. Djassinn hefur streitulosandi áhrif á hlustandann, hann örvar hugann og eykur sköpunarkraft. Það er eitthvað við hann sem lætur manni líða eins og allt sé í himnalagi, þótt himnarnir séu að hrynja í veruleikanum.
Á þriðjudaginn var voru Sörur á boðstólunum. Ekki smákökurnar, heldur Sara Blandon og Sara Mjöll Magnúsdóttir. Sú fyrrnefnda söng, en hún var valin bjartasta vonin í djassflokknum á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hin síðarnefnda lék á píanó. Á efnisskránni voru aðallega lög eftir konur, þ.á m. var lag eftir söngkonuna sjálfa. Það var við ljóð Davíðs Stefánssonar, Stjörnurnar. Ljóðið fjallar um það að stjörnurnar séu gleðitár Guðs þegar hann grét í fyrsta sinn er móðir ól barn. Lag Söru Blandon var hrífandi, meginuppistaðan var grípandi laglína í moll sem söngkonan flutti af töluverðri einlægni.
Önnur lög á tónleikunum voru eftir Billie Holiday, Des‘ree, Annie Ross og Jimmy McHugh. Þau voru öll létt og leikandi í sjálfu sér, og svo var umhverfið ekki til að skemma. Þarna í salnum hangir ótrúlega glæsilegt verk eftir Hrafnhildi Arnardóttur. Þetta eru risastórir borðar í öllum regnbogans litum fyrir ofan og allt í kring, það er eins og að vera inni í einhverri súrrealískri fantasíu.
Því miður mátti finna nokkuð að flutningnum. Sara Blandon hefur flotta rödd, hún er dökk og sjarmerandi. Söngurinn á tónleikunum var engu að síður fremur einhæfur og stirður, sérstaklega í nokkrum bibbidí babb, sem voru furðu þunglamaleg. Söngkonan var of mikið að vanda sig, sem skemmdi upplifunina. Tækni hennar er greinilega enn ekki fullmótuð, en verður örugglega betri í framtíðinni. Hæfileikar hennar eru auðheyrilega ríkulegir og röddin sjálf er svo falleg. Það lofar góðu.
Sara Mjöll stóð sig vel við píanóið, hún var a.m.k. örugg og áslátturinn mjúkur og fallegur. Hins vegar var leikurinn ansi flatur, hann skorti ímyndunarafl, spuninn var býsna varfærnislegur og eftir því óspennandi. Í hreinum undirleik hefði líka mátt vera meira skraut, hröð tónahlaup, o.s.frv. Það var of mikið um endurtekna hljóma, sem var leiðigjarnt til lengdar. Í djassinum eru möguleikarnir endalausir, en þá þarf tæknin að vera til staðar. Henni var um margt ábótavant hér, hjá báðum listakonunum.
Niðurstaða:
Skemmtileg tónlist en flutningurinn hefði mátt vera meira líflegri og fjölbreyttari.