3 stjörnur
Sinfóníutónleikar
Verk eftir Schumann, Beethoven og Jónas Tómasson. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Eivind Aadland. Einleikari: Baiba Skride.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 1. mars
Óvanalegt verður að teljast að draugar skipti sér að frumflutningi tónverks. Það ku þó hafa gerst í tilfelli fiðlukonsertsins eftir Schumann. Eða hvað?
Konsertinn var fluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Schumann, sem var uppi á árunum 1810-1856, þjáðist af geðhvarfasýki. Ofsjónir hrjáðu hann og sjúkdómurinn ágerðist eftir því sem árin liðu. Á endanum reyndi hann að fremja sjálfsmorð og varði lífi sínu á geðveikrahæli eftir það.
Schumann samdi konsertinn seint á ævinni, fyrir vin sinn fiðlusnillinginn Joseph Joachim. Joachim var ekki hrifinn, taldi konsertinn bera öll merki sjúkleika Schumanns, og lék hann því aldrei opinberlega. Í staðinn kom hann handritinu fyrir á safni með þeim fyrirmælum að ekki mætti flytja konsertinn fyrr en hundrað árum eftir dauða Schumanns, þ.e. árið 1956. Verkið féll svo í gleymskunnar dá.
Víkur þá sögunni til miðilsfundar sem haldinn var árið 1933 í London. Á fundinum voru tvær systur, báðar fiðluleikarar og ættingjar Joachims. Samkvæmt þeim kom sjálfur Schumann „í gegn“ og sagði þeim frá óútgefnu verki eftir sig. Andi Joachims fræddi þær svo um hvar það væri geymt. Var hann í algerri mótsögn við sjálfan sig hérna megin grafar, greinilega búinn að skipta um skoðun þarna á astralplaninu! Systurnar fundu handritið og þá fóru hjólin að snúast. Fjórum árum síðar var konsertinn frumfluttur.
Þessi furðulega saga er því miður hið eina áhugaverða við tónsmíðina. Hún er arfaslök, laglínurnar eru stirðbusalegar og óinnblásnar. Tónlistin í heild er lítið annað en léleg stílæfing.
Einleikari var hin lettneska Baiba Skride, og leikur hennar einkenndist af afar fallegri tónmyndun og tæknilegum yfirburðum. Hljómsveitin spilaði líka glæsilega undir öruggri stjórn Eivind Aadland. Það dugði þó ekki til að lyfta tónlistinni upp úr ládeyðunni.
Á tónleikunum var einnig frumflutt Sinfóníetta II eftir Jónas Tómasson. Það var mögnuð tónsmíð. Fyrst heyrðust stakar, ómstríðar laglínur sem smátt og smátt runnu saman í óræðan, þétt ofinn tónavef. Vefurinn var myrkur en fullur af tjáningu, sagði heila sögu. Það var einhver náttúrustemning í tónlistinni, einskonar þoka og margt sem bjó í henni. Kannski hefði vefurinn mátt njóta sín lengur; verkið var mjög stutt, aðeins fimm mínútur.
Flutningurinn var ekki gallalaus. Óhreinn hornablástur skemmdi töluvert heildarmyndina fyrri hluta tónsmíðarinnar og var það pínlegt á að heyra. Strengjaleikurinn í seinni hlutanum var hinsvegar fókuseraður, áferðin var vönduð og nostursamleg.
Um lokaatriði dagskrárinnar þarf ekki að hafa mörg orð. Þetta var Örlagasinfónía Beethovens, sú fimmta. Hún er lýsandi fyrir innri átök tónskáldsins, sem horfðist í augu við þverrandi heyrn, auk þess sem ófriðlega lét í heiminum. Laglínurnar eru áleitnar og framvindan spennuþrungin, hvergi er dauður punktur. Tónlistin er oftast hröð, en hljómsveitin var samtaka og leikurinn öruggur. Málmblásararnir voru hreinir, strengirnir þéttir; aðrir hljóðfærahópar voru líka pottþéttir. Túlkunin var áköf og ástríðuþrungin, ofsinn yfirgengilegur á köflum. Þetta var hrífandi stund.
Niðurstaða:
Konsert eftir Schumann var lélegur og flutningurinn á prýðilegu verki Jónasar Tómassonar var ekki hnökralaus, en Örlagasinfónía Beethovens hitti í mark.