4 stjörnur
Söngtónleikar
Sigríður Freyja Ingimarsdóttir mezzósópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari fluttu tónlist eftir ýmsa höfunda.
Kaldalón í Hörpu
fimmtudaginn 8. mars
Kaldalón í Hörpu er fallegur, lítill salur sem hentar prýðilega fyrir raftónleika. Endurómunin er afar lítil og því er ekkert við salinn sjálfan sem truflar hljómgæðin. Bergmál er erfitt við að eiga, það bjagar tónlist úr hátölurum. Fyrir órafmagnaðan, klassískan söng er Kaldalón hins vegar ekki góður salur. Söngur þarf endurómun til að öðlast nauðsynlega fyllingu. Án hennar er hann nakinn og hrár.
Það er til marks um hæfileika Sigríðar Freyju Ingimarsdóttur mezósópran, að henni tókst að lyfta a.m.k. sumum lögunum upp í hæstu hæðir á tónleikum á fimmtudagskvöldið án þess að takmarkanir salarins trufluðu of mikið.
Sigríður hóf tónlistarferilinn sem píanóleikari, en hún starfar sem píanókennari við Tónlistarskóla Garðarbæjar. Hún hefur þó einnig menntað sig í söng, bæði við New England Conservatory í Boston og undir handleiðslu Alinu Dubik. Ekki er ljóst hvort tónleikarnir sem hér um ræðir voru svokallaðir debúttónleikar, en undirritaður hefur a.m.k. ekki heyrt í henni áður.
Fyrst á dagskránni voru þrjú lög eftir Rakhmanínoff. Túlkun Sigríðar var hrífandi, full af myrkum tilfinningum. Röddin einkenndist af mjög öru, en fókuseruðu víbratói. Raddhljómurinn var fallega mótaður, fínlegur og mjúkur, með kraftmikilli hæð. Meðleikur Ástríðar Öldu Sigurðardóttur var hér, sem og í öðrum atriðum efnisskrárinnar, þéttur og hreinn, og fylgdi söngnum fullkomlega.
Næst í röðinni voru þrjú íslensk lög, Betlikerlingin eftir Sigvalda Kaldalóns, í fjarlægð eftir Karl Ó. Runólfsson og Vor hinsti dagur eftir Jón Ásgeirsson. Lögin voru frábærlega flutt, söngurinn var þrunginn einlægni og næmri tilfinningu fyrir inntaki ljóðanna. Hver einasti tónn, hvert einasta orð var þrungið merkingu. Sömu sögu er að segja um íslensku lögin eftir hlé, sem og tvö sænsk lög.
Tvö sígaunalög eftir Dvorák, sem og aríur úr Il trovatore eftir Verdi, Samson og Dalilu eftir Saint-Saëns og Dido og Aeneas eftir Purcell voru hins vegar ekki eins sannfærandi. Hér vantaði stærðina, bæði í hljóm salarins, sem og í röddina sjálfa. Volduga rödd þarf í slíka tónlist, kraftmikla og breiða. Sigríður hefur hana ekki enn á valdi sínu, ef marka má frammistöðuna á þessum einu tónleikum. Þess má þó geta að einir tónleikar eru ekki alltaf marktækir!
En söngvarar þurfa ekki allir að vera eins. Sumir eru einfaldlega ekki óperusöngvarar, ljóðasöngur hentar þeim miklu betur. Það var þetta litla og einfalda sem Sigríður gerði svo vel að maður gleymir því varla í bráð. Vonandi kemur hún fram með þannig efnisskrá í betri sal næst, og helst sem fyrst.
Niðurstaða:
Túlkunin einkenndist af fágun og listfengi en dagskráin hentaði röddinni misvel.