4 stjörnur
Kammertónleikar
Verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Lou Harrison, Marti Epstein, Hjalta Nordal Gunnarsson og Georgíj Svírídof. Flytjendur: Duo Harpverk og Hljómeyki.
Norðurljós í Hörpu
sunnudaginn 11. mars
Þegar vandamál heimsins hafa verið útkljáð kemur alltaf kona til að taka til og hleypa vindlareyknum út, það bregst ekki. Þetta er í fáum orðum það sem ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur fjallar um. Það var flutt á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn. Tónlistin var eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Flytjendur voru kórinn Hljómeyki undir stjórn Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur og Duo Harpverk sem samanstendur af Katie Buckley hörpuleikara og Frank Aarnink slagverksleikara. Ljóðið er stutt og hnitmiðað og tónlistin var það líka. Einaldur rytmi og einföld laglína lá til grundvallar, hvort tveggja var áleitið og grípandi. Framvindan var sömuleiðis spennandi; útkoman var einkar skemmtileg.
Næsta atriði efnisskrárinnar, Jahla og Bevery‘s Troubador Music eftir Lou Harrison hitti líka beint í mark. Þar var eingöngu leikið á fyrrgreindu hljóðfærin. Tónlistin var fjörleg, áferðin létt austurlensk, tónmálið endurtekningarsamt en ekki á vondan hátt. Góð vísa er aldrei of oft kveðin; hið sama má segja um góða tónahendingu. Hörpuleikurinn var hér í aðalhlutverki, en ásamt Frank sló Hildigunnur taktinn. Hann var flottur og hörpuleikurinn var ákaflega glæsilegur, fullur af tilþrifum og glitrandi tónahlaupum sem voru óaðfinnanlega leikin.
Tvær tilraunakenndari tónsmíðar, leiknar af Frank og Katie, voru næstar á dagskránni. Þetta voru Virga eftir Marti Epstein og Rapsódía eftir Hjalta Nordal Gunnarsson. Nafn hinnar fyrri er komið úr veðurfræði, og vísar til regndropa eða snjókristalla sem ná ekki að falla á grund heldur gufa upp í loftinu. Stemningin var mjög kyrrlát, tónlistin samanstóð af hljóðum tónum á stangli, ýmist úr hörpunni eða allskonar slagverki. Þetta byrjaði vel, andrúmsloftið var dáleiðandi, en þegar langur tími leið og ekkert bar til tíðinda fór manni að leiðast. Verkið hefði að ósekju mátt stytta um helming.
Tónlistin eftir Hjalta var mun áhugaverðari, þar var töluvert um drama og andstæður sem voru áhrifaríkar. Risastór tromma spilaði stóra rullu, hávaðinn í henni var svo mikill að áheyrendur hrukku við í hvert sinn. Í verkinu mátti greina markvissa atburðarrás, ýmiss konar blæbrigði voru sett fram af smekkvísi og heildarútkoman var hrífandi. Hjaldi er ungur að árum, fæddur árið 1999. Hann er greinilega bráðefnilegur.
Eftir hlé var aðeins ein tónsmíð á efnisskránni, Púshkinsveigur eftir Georgíj Svíridof. Hann var uppi á öldinni sem leið, nemandi Sjostakovitsj og í miklu uppáhaldi hjá honum. Púshkinsveigurinn byggir á tíu ljóðum skáldsins ástsæla, og í honum er alltaf eitthvað kræsilegt að gerast. Hér steig Hljómeyki aftur fram á svið en Dúóið, ásamt Hildigunni sem lék á selsestu og Erni Magnússyni á píanó, aðstoðaði í nokkrum laganna.
Undirtitill verksins er Konsert fyrir kór, enda er kórinn hugsaður eins og hljómsveit. Fjölbreyttir effektar komu við sögu, bergmál og fljókin fjölröddun, einsöngur og hvaðeina. Tónlistin var margþætt og á köflum tignarleg, og Hljómeyki söng svo vel að það var helber unaður. Raddirnar voru hreinar og þéttar, samsöngurinn í fullkomnu jafnvægi. Hver einasta tónahending var fagurlega mótuð. Útkoman var stórbrotin og verður lengi í minnum höfð.
Niðurstaða:
Mögnuð dagskrá með frábærum söng og hljóðfæraleik.