5 stjörnur
sinfóníutónleikar
Gautarborgarsinfónían flutti verk eftir Beethoven, R. Strauss og Sibelius. Einleikari: Hélène Grimaud. Stjórnandi: Santtu-Matias Rouvali.
Eldborg í Hörpu
sunnudaginn 18. mars
Góðir píanóleikarar eru óteljandi. Þeir sem ætla að slá í gegn þurfa því eitthvað meira en bara að vera góðir. Hélène Grimaud hefur ákveðna sérstöðu fyrir tengls sín við úlfa. Fyrir hundrað árum hefði það hvarflað að manni að hún væri varúlfur. Hún eyðir svo miklum tíma með úlfum að það er hreinlega ekki einleikið. Hún ræktar þá og stofnaði á sínum tíma miðstöð í Bandaríkjunum þeim til verndar.
Grimaud segir frá þessu í sjálfsævisögu sinni. Nótt eina fyrir tæpum tuttugu árum fór hún út til að viðra hund vinar síns. Þá rakst hún á skringilegan náunga sem bjó skammt frá. Hann átti gæludýr sem hún telur að hafi verið hálfur úlfur og hálfur hundur. Úlfhundurinn kom til hennar og hún rétti út höndina. Hann leyfði henni að snerta sig og hún segir að þá hafi rafstraumur farið um sig sem hafi kveikt undarlegan söng í sál hennar. Það var líkt og óþekktur forn kraftur kallaði á hana.
Það var svo sem ekkert varúlfalegt við Grimaud þegar hún lék einleik með Gautarborgarsinfóníunni í Hörpu á sunnudagskvöldið. Þvert á móti var leikur hennar í upphafi mjög blíðlegur, enda á dagskránni fjórði píanókonsertinn eftir Beethoven. Byrjun konsertsins er eins og í hugleiðslu, en svo magnast hann og rís upp í marga hápunkta. Formið er þó alltaf agað, hrynjandin óskeikul, hröð tónahlaup upp og niður hljómborðið ávallt í takt við hljómsveitina. Leikur Grimaud var akkúrat og fátt sem kom á óvart. En svo byrjaði einleiksþátturinn í lok fyrsta kaflans, kadensan svokallaða. Hún myndaði skemmtilega andstæðu við allt þetta fyrirsjáanlega í samspili einleikarans og hljómsveitarinnar. Hér var spilamennska Grimaud full af ástríðu og drama, túlkunin var áköf og hitti beint í mark.
Í heild var flutningurinn á konsertinum lifandi og skemmtilegur, auk þess sem hann var tæknilega öruggur. Annað á efnisskránni var sömuleiðis frábært. Svíta úr óperunni Rósarriddarinn eftir Richard Strauss var einhver magnaðasti tónlistarviðburður sem hefur átt sér stað á landinu, leyfir undirritaður sér að fullyrða. Hið margbrotna tónmál var útfært af ótrúlegri nákvæmni og smekkvísi undir kraftmikilli stjórn Santtu-Matias Rouvali. Litir hljómsveitarraddanna voru svo dásamlega skýrir og sterkir að það var alveg einstakt. Gautarborgarsinfónían er stærri en sú íslenska, en ekki bara það. Samspilið var það fágað að smæstu blæbrigði voru unaður áheyrnar og ofsafengnir kaflar rafmagnaðir. Framvindan í túlkuninni var líka sérlega spennuþrungin.
Ekki var fyrsta sinfónían eftir Sibelius síðri. Tónlistin er viðburðarrík, það er alltaf eitthvað að gerast, laghendingar rísa og falla, allskonar hrynjandi kemur við sögu og risið í lokin er voldugt. Verkið er vissulega ekki eins flott og ýmislegt annað eftir Sibelius, en flutningurinn var samt í fremstu röð, svo fallega mótaður og tæknilega fullkominn að það gerist ekki betra.
Niðurstaða:
Frábærir tónleikar með flottum einleikara og himneskri hljómsveit.