Að höggva mann og annan

5 stjörnur

Jón Leifs: Edda II. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Hermanns Bäumer. Schola cantorum (kórstjóri: Hörður Áskelsson) söng. Einsöngvarar: Kristinn Sigmundsson, Elmar Gilbertsson og Hanna Dóra Sturludóttir.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 23. mars

Píanóleikari sem ég þekki sagði mér að hann hefði einu sinni æft Strákalag eftir Jón Leifs (1899-1968). Forneskjuleg stemningin í verkinu hafði svo mikil áhrif að hann langaði mest til að að fara út að höggva mann og annan.

Að höggva mann og annan var einmitt mjög freistandi á stórtónleikum í Eldborg í Hörpu á föstudagskvöldið. Eða bara krafsa í næsta tónleikagest og éta efnisskrána hans! Flutt var Edda II eftir Jón Leifs, annar hluti þríleiks sem aldrei hefur hljómað á tónleikum fyrr í heild sinni. Fyrsti hlutinn var frumfluttur árið 2006 í Háskólabíói og fjallaði á stórbrotinn hátt um sköpun heimsins eins og henni er lýst í norrænni goðafræði. Í þetta sinn var umfjöllunarefnið guðirnir, valkyrjurnar, ásynjurnar, nornirnar og einherjarnir, þ.e. framliðnar sálir þeirra sem deyja í orrustu.

Afhverju var stórvirkið ekki frumflutt á meðan Jón lifði? Skýringuna er að finna í þeim litla meðbyr sem hann naut. Tónlist hans var líka allt öðruvísi en sú sem þá þekktist. Hún var fyrsta þjóðlega fagurtónlistin á Íslandi, innblásin af ofbeldisfullum bókmenntaarfinum og hrjóstrugri náttúrunni. Fyrir bragðið þótti hún erfið áheyrnar.

Edda II er mögnuð tónsmíð, og þó að hún hafi virkað fráhrindandi fyrst á tónleikunum á föstudagskvöldið, var krafturinn og kynngin slík að áður en yfir lauk var eins og maður væri kominn í gráa forneskju.

Of langt mál væri að fjalla um allt verkið hér, en tónlistin var ákaflega lýsandi fyrir það sem var að gerast í textanum hverju sinni. Gott dæmi er kaflinn um valkyrjurnar, hinar herskáu vættir sem ráða sumum bana en vernda aðra. Leikur hljómsveitarinnar var taktfastur og hrikalegur, reis aftur og aftur upp í ofsafengna hápunkta. Kórinn söng nöfn valkyrjanna eins hvasst og hugsast gat, þau hljómuðu eins og byssuskot. Útkoman var ógnvekjandi, svo mjög að hún sat í manni lengi á eftir.

Flutningurinn á öllu saman, undir stjórn Hermanns Bäumer, var glæsilegur. Schola cantorum söng og stóð sig firnavel í afar krefjandi hlutverki. Innkomur voru oftar en ekki sérlega erfiðar, gjarnan hátt á tónsviðinu og svo var stokkið yfir ómstríð tónbil. Samhljómur  kórsins var tær og þróttmikill, en kórinn var þó heldur lítill fyrir svo stóra tónsmíð. Upptaka með tónlistinni, sem ráðist verður í á næstunni, er tilhlökkunarefni; kórinn verður þar án efa framar í heildarhljómnum.

Einsöngvarar voru þrír, þau Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Kristinn Sigmundsson. Raddir þeirra allra voru fagurhljómandi og gæddar viðeigandi krafti. Hljómsveitin var sömuleiðis í essinu sínu, en þar gekk ekki lítið á. Slagverkið var yfirgengilegt og málmblásturinn þrumandi. Tveir fornlúðrar voru áberandi, en þeir eiga ættir sínar að rekja til bronsaldar. Hljómurinn í þeim var vissulega ekki hreinn, en rímaði samt þannig enn þá betur við stemninguna í tónlistinni.

Í heild var túlkunin einkar spennuþrungin, eins og vera bar. Andrúmsloft óhugnaðar varð æ sterkara, og það heltók mann. Í lokin var leikinn sterkasti hljómurinn í öllu verkinu, svo ægilegur að það var sem himnarnir opnuðust. Það hlýtur að vera einhver áhrifamesti endir í íslenskum tónbókmenntum.

Niðurstaða:

Frumflutningurinn á Eddu II eftir Jón Leifs var stórfenglegur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s