Vorinu fagnað í Kristskirkju

4 stjörnur

Steingrímur Þórhallsson: Harpa kveður dyra, tólf blik og tónar við ljóð Snorra Hjartarsonar. Kór Neskirkju söng, Steingrímur Þórhallsson stjórnaði.

Kristskirkja

miðvikudaginn 18. apríl

„Ég er komin með vorið til þín, vaknaðu og sjáðu.“ Þessa setningu var að finna í kórverki eftir Steingrím Þórhallsson sem ber nafnið Harpa kveður dyra, tólf blik og tónar við ljóð Snorra Hjartarsonar. Það var frumflutt í Kristskirkju á miðvikudagskvöldið. Kór Neskirkju söng, en Steingrímur er stjórnandi kórsins.

Ljóð Snorra (1906-1986) hafa sjaldan verið tónsett, sem er furðulegt, því þetta eru magnaðar náttúrustemningar. Þau sem hér heyrðust voru tólf talsins og var raðað þannig að þau fóru með mann í ferðalag úr myrkri og drunga yfir í ljós og birtu. Verkið var enda flutt síðasta vetrardag.

Tónlistin var falleg. Hún byggðist á þeirri klassísku aðferð að undirstrika merkingu hverrar ljóðahendingar með tónrænu líkingamáli. Bach var meistari í þessu, en táknfræðin í stóru trúarlegu tónsmíðunum hans er ótrúlega margslungin. Seinni tíma tónskáld hafa því miður oft fallið í gryfju tilgerðar, nánast eins og þau séu að troða meiningu viðkomandi ljóðs ofan í tónleikagesti. Sú var aldrei raunin á tónleikunum á miðvikudagskvöldið.

Styrkur Steingríms fólst m.a. í laglínunum. Þær voru einstaklega hrífandi. Vissulega voru þarna alls konar myndræn stílbrögð líka; nefna má þegar skáldið bað sólina um að vefja „hlýjum heiðum örmum um hug“ sér, og tónmálið varð þétt, langar hendingar vöfðu sig saman. Þetta var þó ekki banalt, melódíurnar og táknmálið mynduðu þvert á móti kraftmikla heild sem var ávallt eðlileg og blátt áfram.

Steingrímur var óhræddur við einfaldleikann. Sum ljóðin fengu að flæða án endurtekninga, fábrotnum valstakti brá meira að segja fyrir í byrjun. Valsinn var viðeigandi fyrir upphaf ferðalagsins; það voru lítil, óheft skref sem urðu fljótlega að erfiðri göngu um myrkrið. Er það gerðist varð flókinn hljómagangur og röddun áberandi. Einfaldleikinn kom samt aftur í lokin í kraftmiklu lagi þar sem vorinu var fagnað og hrynjandin var í aðalhlutverki. Lokalagið hefði að ósekju mátt vera lengra, e.t.v. með einhvers konar aðdraganda, enda hápunktur verksins. Maður vildi meira!

Tónlistarflutningurinn var glæsilegur. Kórinn söng a capella, þ.e. án undirleiks, ef frá er talin tambúrína, handtromma með bjöllum, sem notuð var til að skreyta síðasta lagið. Kórsöngurinn var þéttur, toppraddirnar voru prýðilega mótaðar og innraddirnar yfleitt nákvæmar; bassinn vel framsettur. Ég hef lítið heyrt eftir Steingrím hingað til; spennandi verður að fylgjast með honum í framtíðinni.

Niðurstaða:

Falleg tónsmíð, falleg ljóð, fallegur söngur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s