Flautað út í eitt í Norræna húsinu

3 stjörnur

kammertónleikar

Íslenski flautukórinn og gestir fluttu verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson.

Norræna húsið

sunnudaginn 22. apríl

Þorkell Sigurbjörnsson hefði orðið áttræður á árinu, en hann lést fyrir fimm árum síðan. Hann var eitt fremsta tónskáld þjóðarinnar og gat samið allt mögulegt, tónlist fyrir leikhús, og kirkjur – allskonar tækifæri. Sálmarnir hans eru margir ódauðleg snilld.

Eitt megineinkenni Þorkels sem tónskálds var húmor. Sumar tónsmíðarnar hans voru tækifærisverk. Þær byggðust oft á bröndurum. Yfirleitt var það einkahúmor sem tengdist viðkomandi flytjendum og þeim aðstæðum sem urðu til þess að verkið var pantað.

Gallinn við brandara er að þeir hætta fljótt að vera fyndnir. Sum verkanna sem voru flutt voru á tónleikum Flautukórsins í Norræna húsinu á sunnudaginn í 15:15 röðinni voru þessu marki brennd. Þau hafa ekki elst sérlega vel. Tónleikarnir voru auk þess ansi langir fyrir einhæfan tónlistarflutning; að heyra nánast ekkert annað en þverflautuleik í heila tvo tíma er fullmikið af því góða.

Alls voru nítján atriði á efnisskránni. Níu þeirra voru reyndar örstuttar skissur, kaflar úr sama verkinu, Níu (samhverfum) rissum fyrir altflautu. Kaflarnir voru leiknir af jafnmörgum flautuleikurum, einum í einu. Verkið sem heild náði aldrei flugi, því köflum þess var dreift um efnisskrána, stærri tónsmíðar frá mismunandi tímabilum voru spilaðar inn á milli. Þetta skemmdi heildarmyndin; það var vaðið úr einu í annað – bókstaflega.

Stærri verkin voru misgóð. Kalais í flutningi Berglindar Maríu Tómasdóttur olli vonbrigðum. Það var samt ágætlega leikið, en þarfnaðist meiri endurómunar. Í síðasta hluta tónsmíðarinnar sveiflar aðstoðarmaður um metralangri gúmmíslöngu í hringi og kallar þannig fram vindhljóð. Þessi hljóð eiga í rauninni að renna saman við flautuleikinn, þó ekki sé beinlínis leikið á flautuna á sama tíma. Þurr hljómurinn í Norræna húsinu eyðilagði þann galdur.

Bestu verkin voru m.a. hin hugvitsamlegu Sex þjóðlög fyrir flautu, selló og fiðlu. Berglind Stefánsdóttir spilaði á flautu, Auður Hafsteinsdóttir á fiðlu og Sigurgeir Agnarsson á selló. Þremenningarnir voru með allt á hreinu, auk þess sem raddir annarra hljóðfæra en flautunnar sköpuðu kærkomna tilbreytingu.

Oslóarræll var líka skemmtilegur. Berglind María Tómasdóttir flutti hann af gífurlegum krafti og skellti fæti í gólf í lokin, sem vakti kátínu tónleikagesta. Ra’s Dozen fyrir tólf flautuleikara var sömuleiðis magnað, þetta er margbrotin, fjölradda tónlist, sveimkennd og einkar dáleiðandi.

Frammistaðan á tónleikunum sem slík var góð; fjölmargir flautuleikarar voru flottir í hlutverkum sínum, en of langt mál væri að telja þá alla upp. Efnisskrána hefði hins vegar mátt hugsa betur, auk þess sem hljómburðurinn í Norræna húsinu fór tónlistinni ekki nægilega vel.

Niðurstaða:

Fínn flutningur, en efnisskráin var einhæf og vanhugsuð.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s