Þegar Mozart var drepinn

5 stjörnur

Kvikmyndatónleikar

Amadeus eftir Milos Forman og Peter Shaffer. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Ludwig Wicki. Mótettukór Hallgrímskirkju söng (kórstjóri Hörður Áskelsson). Einleikari: Mei Yi Foo.

Eldborg í Hörpu

Föstudaginn 29. apríl

Er ég sé til leikarans F. Murray Abraham, meira að segja í þáttaröðinni Homeland, þar sem hann leikur CIA njósnara, þá hugsa ég alltaf: Þetta er maðurinn sem drap Mozart. Leikur hans í kvikmyndinni Amadeus, þar sem hann var í hlutverki hins afbrýðisama tónskálds Salieris var svo kraftmikill að það er manni ógleymanlegt. Í myndinni eru þeir tveir keppinautar.

Milos Forman, sem leikstýrði Amadeus, lést á dögunum. Það var því viðeigandi að sýna myndina á stóru tjaldi. Var það einmitt gert núna fyrir helgi. Myndinni var sýnd í Eldborginni í Hörpu. Nánast öll tónlistin var í lifandi flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Mótettukórs Hallgrímskirkju og píanóleikarans Mei Yi Foo.

Ýmis vandamál eru við bíósýningu þegar tónlistin er leikin á staðnum. Hljóðblöndun tals og tónlistar er ekki fyrir hendi, tónlistin er gjarnan of sterk. Þetta kom þó ekki að sök hér, því myndin var textuð, auk þess sem tónlistin er í gríðarlega stóru hlutverki í myndinni. Hún á ekki bara að styðja við framvindu og stemningu eins og venjuleg kvikmyndatónlist.

Flutningurinn var í hvítvetna stórkostlegur. Helst mátti finna að eilítið óstöðugum karlaröddum í lok myndarinnar, þegar Salieri var að skrifa sálumessu eftir fyrirmælum Mozarts, sem liggur á banabeði sínum. Í það heila var kórsöngurinn þó þéttur og voldugur og með allt á hreinu. Hljómsveitin var líka í banastuði undir pottþéttri stjórn Ludwig Wicki. Leikurinn var ætíð tær, nákvæmur og fjörlegur. Tónlistin var ávallt leikin á hárréttum tíma. Stjórnandinn var með ipad fyrir framan sig sem var tengdur við myndina og ýmsar bendingar þar sem hjálpuðu við hljómsveitarstjórnina. Píanóleikur Mei Yi Foo var sömuleiðis afar fallegur, mjúkur og ljóðrænn.

Er Amadeus var sýnd fyrst fór hún fyrir brjóstið á mörgum tónlistarspekúlantinum. Það er í sjálfu sér skiljanlegt. Salieri og Mozart voru ekki svona miklir óvinir í raunveruleikanum. Sá síðarnefndi var þó vissulega grallari og átti það til að vera klámfenginn í bréfaskriftum, en að hann hafi verið einhver hálfviti sem hló skrækum rómi er ósennilegt.

Þessar miklu andstæður persónuleika tónskáldsins og tónlistarinnar sjálfrar, eins og þeim er teflt fram í myndinni, eru samt sérlega áhrifamiklar. Þær undirstrika hversu tónlistin var mikið undur. Hún streymdi niður fullmótuð í huga Mozarts, líkt og hún kæmi frá himnaríki. Persónuleiki tónskáldsins skipti þar engu máli. Það er þetta sem gerir myndina svona góða. Tónlistin er miðpunkturinn, ekki Mozart sjálfur, Salieri eða neinn annar. Án efa voru þetta með betri tónleikum vetrarins.

Niðurstaða:

Stórfenglegir tónleikar með tónlist Mozarts í dásamlegum búningi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s