4 stjörnur
Verk eftir Saariaho, Sibelius og Bartók í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Alina Pogostkina, stjórnandi: Daniel Blendulf.
Eldborg í Hörpu
föstudaginn 25. maí
Það er einmannalegt að semja tónlist. Tónskáldið gerir það eitt síns liðs, kafar ofan í sál sína og útkoman er kóði nótnaskriftar sem hljóðfæraleikarar þurfa að umbreyta í lifandi tónlist. Sá viðburður á sér oftar en ekki stað löngu síðar, jafnvel eftir dauða tónskáldsins, eins og þegar Jón Leifs var annars vegar. Þetta ferli var finnska tónskáldinu Jean Sibelius erfitt, og ekki bætti úr skák að viðtökur tónlistar hans voru afar mismunandi eftir landsvæðum. Á sumum stöðum var hann hafinn upp til himna, en annars staðar kallaður andlaus skallapoppari. Þetta endurspeglaðist í sálarlífi hans, honum fannst hann ýmist vera í beinu sambandi við almættið, eða algerlega misheppnaður. Á endanum bugaði alkóhólisminn hann sem tónskáld og upp úr fimmtugu hætti hann að semja. Innblásturinn hvarf og kom aldrei aftur.
Þessar miklu andstæður í karakter Sibeliusar eru auðfundnar í tónlist hans, og frábært dæmi um það mátti heyra á tónleikum Sinfóníunnar á föstudagskvöldið. Fluttur var fiðlukonsertinn hans, sem er einn sá vinsælasti. Ástæðurnar fyrir því eru einstaklega safaríkar melódíur, kraftmikil dramatísk átök einleiksraddar og hljómsveitar.
Einleikari var Alina Pogostkina. Leikur hennar var fínlegur og draumkenndur þegar við átti, en slík augnablik voru tíð í tónlistinni. Inn á milli voru öflugri kaflar, en þeir einkenndust m.a. af hröðum tónahlaupum og þéttum tvígripum, sem voru óðafinnanlega af hendi leyst. Útkoman var framúrskarandi, ekki síst fyrir það hve Sinfónían spilaði vel. Heildarhljómur einleiks og hljómsveitar var fókuseraður og skemmtilega margbrotinn, enda stjórnandinn, Daniel Blendulf, með allt á hreinu.
Aukalagið kom á óvart. Venjulega er það einleiksverk, án undirleiks. En konsertmeistari hljómsveitarinnar, Nicola Lolli, gekk fram og þau Pogostkina fluttu Duo eftir Béla Bartók af leiftrandi glæsimennsku.
Fleira góðgæti var á efnisskránni. Vetrarhiminn, Ciel d‘hiver, eftir samlanda Sibeliusar, Kaiju Saariaho, var að vísu dálítið spúkí, en á góðan hátt. Saariaho er eitt þekktasta tónskáld vorra tíma, og tónverk hennar eru seiðandi. Hér lá ringulreið veikra, en þéttra og framandi hljóma til grundvallar, en yfir öllu saman hljómuðu skærar tónahendingar, eins og stjörnur á vetrarnóttu. Þetta var flott tónlist, og leikur Sinfóníunnar var fágaður; nostrað var við hvert smáatriði.
Konsert fyrir hljómsveit eftir Bartók var lokaverkið á efnisskránni. Konsert er yfirleitt fyrir einleikara og hljómsveit, en hér gegna mismunandi hljóðfærahópar einleikshlutverkinu. Þeir kasta því á milli sín, ef svo má að orði komast. Stemningin í tónlistinni er á tíðum nokkuð þurr og laglínurnar tormeltar. Síendurtekin stígandin er þó rafmögnuð og hápunktarnir yfirgengilegir, auk þess sem raddsetningin er litrík. Leikur hljómsveitarinnar var stórfenglegur, samtaka og kröftugur, og nánast brjálæðislegur í lokin, akkúrat eins og hann átti að vera.
Niðurstaða:
Magnaður einleikur og hljómsveitarleikur; innblásin tónlist.