Flott hljóðfæri í lélegum hljómburði

3 stjörnur

Verk eftir Halldór Smárason, Mamikó Dís Ragnarsdóttur, Jón Leifs, Unu Sveinbjarnardóttur og Hauk Tómasson. Strengjakvartettinn Siggi (Una Sveinbjarnardóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson) lék.

Fríkirkjan í Reykjavík

Sunnudaginn 3. júní

Allar vita að Stradivarius fiðlur eru bestar. Eða hvað?

Franskur rannsakandi, Claudia Fritz, hefur á undanförnum árum sýnt fram á hið gagnstæða. Fyrir fjórum árum fékk hún tíu fiðluleikara í heimsklassa til að prófa nokkrar fiðlur blindandi. Sumar þeirra voru gamlar Stradivarius fiðlur, aðrar nýjar. Það merkilega var að fiðluleikararnir gátu ekki greint þar á milli. Það sem meira var, þeir töldu þær nýju vera betri. Síðar framkvæmdi Fritz aðra rannsókn þar sem ýmist var spilað á gamlar eða nýjar fiðlur fyrir framan áheyrendur. Hið sama gerðist, áheyrendur gátu ekki sagt til um aldur hljóðfæranna, en voru almennt hrifnari af þeim nýju.

Á tónleikum á Listahátíð sem haldnir voru í Fríkirkjunni í Reykjavík á sunnudagskvöldið, mátti heyra í splunkunýjum fiðlum, og einnig víólu og sellói. Strengjakvartettin Siggi spilaði þar á hljóðfæri sem Jón Marinó Jónsson hefur smíðað.

Því miður fengu þau ekki almennilega að njóta sín fyrr en eftir hlé. Hljómburðurinn í Fríkirkjunni er ekki góður fyrir órafmagnaða strengi, endurómunin er ekki nægileg. Eftir hlé voru hljóðfærin hins vegar keyrð upp í hljóðkerfi. Þá heyrði maður fyrst hve þau eru glæsileg. Hljómurinn í þeim var einkar þýður og fallegur, en líka stór og breiður. Af hverju var hljóðkerfið ekki notað alla tónleikana?

Efnisskráin var nokkuð misjöfn. Fyrsta verkið, Draw+Play eftir Halldór Smárason var mjög afstrakt, og samanstóð m.a. af klóri, banki og öðrum skrýtnum hljóðum. Tónlistin var ekki skemmtileg áheyrnar, en hún var snyrtilega byggð upp, með greinanlegri framvindu og hápunkti sem var rökréttur.

Sömu sögu er ekki að segja um Blómin fríð eftir Mamiko Dís Ragnarsdóttur. Tónsmíðin byrjaði þó vissulega vel. Laghendingarnar voru grípandi og samhjómurinn sem ólíkar línur mynduðu var seiðandi. Síðan leið bara alltof langur tími þar sem ekkert gerðist. Það vantaði frásögn, strúktúr og ferli í tónlistina, hún var of endurtekningarsöm. Hljómleysi kirkjunnar var svo ekki til að bæta.

Síðasta verkið fyrir hlé var ekki heldur ásættanlegt. Þetta var fyrsti strengjakvartett Jóns Leifs, sem ber titilinn Mors et vita. Fjórmenningarnir léku samt ágætlega, en það skilaði sér engan veginn í lélegum hljómburðinum. Hann flatti tónlistina út, gerði hana gráa og óspennandi.

Eftir hlé voru tvær tónsmíðar á dagskrá, Serimónía eftir Hauk Tómasson og Þykkt eftir Unu Sveinbjarnardóttur. Sú fyrrnefnda var kuldaleg og afar ómstríð, en að sama skapi stílhrein og hóflega löng. Verk Unu var hins vegar prýðilegt, sjarmerandi ævintýri gætt miklum andstæðum. Töfrandi stefin og fagrir hljómarnir voru alltaf áhugaverðir.

Í lokin léku fjórmenningarnir aukalag sem var eftir Jón Marinó hljóðfærasmið. Þetta var ofureinfalt lag í dúr og moll. Eftir allt þetta ómstríða og flókna á efnisskránni var það kærkomin tilbreyting. Þetta var einstaklega hugljúf stund, manni hlýnað um hjartaræturnar og það var nánast eins birti til í kirkjunni.

Niðurstaða:

Slæmur hljómurður og misgóð dagskrá, en glæsilegur leikur á fjögur ný, íslensk strengjahljóðfæri.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s