Mögnuð ný ópera Daníels Bjarnasonar

5 stjörnur

Daníel Bjarnason: Brothers. Libretto eftir Kerstin Perski. Leikstjórn: Kasper Holten. Meðleikstjóri: Amy Lane. Leikmynd og búningar: Steffen Arfing. Ljósahönnuður: Ellen Ruge. Myndbandshönnuður: Signe Krogh. Einsöngvarar: Oddur Arnþór Jónsson, Elmar Gilbertsson, James Laing, Marie Arnet, Þóra Einarsdóttir, Jakob Cristian Zethner, Paul Carey Jones, Hanna Dóra Sturludóttir og Selma Buch Ørum Villumesen. Kór Íslensku óperunnar undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.

Eldborg í Hörpu

laugardaginn 9. júní

Fyrir rúmum fimmtán árum kom staðnað verkefnaval Íslensku óperunnar til tals í fjölmiðlum. Einhver stakk upp á að Óperan ætti að skapa sér sérstöðu með því að einbeita sér að nýbreytni í óperuuppfærslum, með áherslu á íslenskar samtímaóperur. Bjarni Daníelsson, þáverandi óperustjóri, svaraði að lítil gróska væri í ritun íslenskra ópera.  Kassastykkin nytu aftur á móti hylli almennings og því þyrfti að leggja áherslu á þau. Breytt stefna yrði líklegast „skjótvirkur dauðadómur yfir Íslensku óperunni.“

Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi orð voru rituð. Rómantísk ópera Gunnars Þórðarsonar, sem sett var upp fyrir um fimm árum, féll heldur betur í kramið hjá áheyrendum. Á laugardagskvöldið í Eldborginni í Hörpu var svo komið að syni Bjarna óperustjóra, Daníel, að sýna Íslendingum hvað hægt er að gera á þessum vettvangi. Þar var óperan hans, Brothers, sýnd, en um var að ræða samstarfsverkefni Íslensku óperunnar og Den Jyske Opera, sýnt á Listahátíð í Reykjavík.

Daníel uppskar ekki minni fagnaðarlæti en Gunnar. Tónmál hans var þó allt öðru vísi, myrkara og ómstríðara, en ekki þannig að það væri leiðinlegt. Þvert á móti undirstrikaði tónlistin ætíð hvað var að gerast í sögunni og magnaði hana upp. Hún gerði hana svo áþreyfanlega að það var eins og maður væri sjálfur þátttakandi í atburðarrásinni.

Tónlistin tók stöðugum breytingum, en samt var heildarsvipurinn sterkur, með undirliggjandi hljómum sem sköpuðu mikla stemningu. Breiddin og hröð framvindan var einkar spennandi. Það var allt frá fábrotnum, nöktum píanóhendingum og áleitnum slagverkstakti upp í þéttofinn og glæsilegan tónavef kórs, einsöngvara og hljómsveitar.

Brothers fjallar um tvo bræður, Michael og Jamie. Michael fer í stríð ásamt vini sínum, Peter, en Jamie, sem er hálfgerður auðnuleysingi, situr eftir heima. Félagarnir eru teknir höndum og í fangaklefanum síðar er Michael neyddur til að myrða Peter. Þegar hann sleppur úr prísundinni og kemur heim er hann eyðilagður maður.

Leikstjórn Kasper Holten var kröftug, þar var hvergi dauður punktur. Hver einasti einsöngvari stóð sig með prýði, bæði í leik og söng. Oddur Arnþór Jónsson var frábær, hann náði að túlka sálarumbrot Michaels af áhrifamiklu listfengi. Sömu sögu er að segja um Elmar Gilbertsson í hlutverki Jamies. Aðrir einsöngvarar, þau James Laing, Marie Arnet, Þóra Einarsdóttir, Jakob Cristian Zethner, Paul Carey Jones og Hanna Dóra Sturludóttir voru öll stórglæsileg. Lítil stúlka, Selma Buch Ørum Villumesen, var líka einstök, hafði í senn sviðssjarma og fallega rödd.

Kór Íslensku óperunnar var sérlega góður, samsöngurinn var þéttur, tær og fókuseraður. Hlutverk kórsins var óvanalega stórt miðað við það sem gengur og gerist í óperum. Finna má hliðstæðu við gríska harmleiki; kórinn, rétt eins og þar, lýsti atburðarrásinni og hugleiddi hana, auk þess sem hann brá sér í ólík hlutverk og var hluti af einfaldri, en sterkri sviðsmyndinni.

Sviðsmyndin var augnayndi; stundum logandi eldur sem varpað var yfir allt sviðið, stundum skuggar, stundum skjátexti, rétt eins og í þöglu myndunum. Hún studdi við söguna í hvívetna.

Loks ber að hrósa Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir fagmannlega spilamennsku undir undir öruggri og nákvæmri stjórn tónskáldsins sjálfs. Daníel er reyndur hljómsveitarstjóri og hann þekkir möguleika hljómsveitarinnar út í ystu æsar. Það heyrðist á því hve hljómsveitarröddunin í óperunni, þ.e. raddsetningin, var fjölbreytt, með allskonar litbrigðum og samsetningum sem unaður var á að hlýða. Þetta var snilld.

Niðurstaða:

Áhrifamikil nútímaópera, stórglæsilegur söngur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s