Tónlist truflaði frásögn, og öfugt

2 stjörnur

Hjálmurinn. Saga: Finn-Ole Heinrich. Tónlist: Sarah Nemtsov. Ensemble Adapter lék (Kristjana Helgadóttir, Ingólfur Vilhjálmsson, Gunnhildur Einarsdóttir, Matthias Engler, Zoé Cartier).

Tjarnarbíó

sunnudagur 10. júní

Í kvikmyndum heyrist ómstríð tónlist bara þegar eitthvað ægilegt er á ferðinni. Er ekki rökrétt að álykta að þegar margir hlusti á slíka tónlist á tónleikum, þá komi blóðugir uppvakningar og hundar úr helvíti sjálfkrafa upp í hugann? Svipað er uppi á teningnum með ástarsenur, bílaeltingarleiki, slagsmál, o.s.frv. Hefð er orðin fyrir ákveðinni tegund tónlistar í tilteknum atriðum. Vinsældir kvikmyndarinnar hljóta því að hafa mótað viðbrögð okkar á tónlist. Kvikmyndin hefur gefið fólki tækifæri til að SJÁ tónlistina, skilja merkingu hennar á sjónrænan hátt. Hún hefur a.m.k. ýtt undir þessa merkingu.

Ómstríð tónlist sem kallar fram hrylling í hugskoti manns, verður þó yfirleitt að hafa einhverja rómantík í sér. Með því er ekki vísað til hefðbundins skilnings þess orðs, heldur til rómantíska tímabilsins í tónlistarsögunni, 19. aldarinnar. Það var þá sem hvers konar tilfinningar urðu allsráðandi í tónlistinni. Hrollvekjandi ómstríð tónlist verður að tilheyra slíkum stíl, þó hljómar og laglínur séu nútímalegri. Tilgangur kvikmyndatónlistar er jú að magna upp tilfinningar og andrúmsloft.

Sarah Nemtsov, þýskt samtímatónskáld, sem var í öndvegi á tónleikum á Listahátíð í Tjarnarbíói á sunnudaginn, semur vissulega ómstríða tónlist. Það er hins vegar engin rómantík í verkum hennar. Samhljómurinn er afar annarlegur, og ekki er að hægt að finna neitt sem kalla mætti laglínu. Framvindan þar er þó skýr og hljómarnir eru á sinn sérstæða hátt spennandi, en þeir eru gersneyddir tilfinningum. Kannski væri hægt að tala um heiðríkju í verkunum, þau eiga meira skylt við flókna fjölröddun endurreisnarinnar en nokkuð annað.

Tónlist Nemtsov er mjög flott á sinn hátt, gædd innra samræmi og áleitinni fagurfræði. Hún  virkaði samt  ekki í samhenginu sem boðið var upp á á tónleikunum í Tjarnarbíói. Þar var sögð saga af dreng sem setur á sig hjálm og neitar að  taka hann af sér fyrr en kringumstæður hans breytast; þannig glímir hann við missi og sorg. Guðmundur Felixson leikari sagði söguna, en kammerhópurinn Ensemble Adapter spilaði undir. Tónlistin virðist hafa átt að gera söguna meira lifandi en það tókst ekki vel.

Samband tónlistarinnar og sögunnar var  aldrei sérlega sterkt, nema á yfirborðslegan hátt. Tónlistin fólst  í umhverfishljóðum sem tengdust mismunandi atburðum sögunnar en gerðu ekkert fyrir hana. Þau skiptu því engu máli; þvert á móti skapaði skorturinn  á tilfinningunum í tónlistinni fjarlægð. Hún truflaði frásögnina frekar en hitt, og því var líka öfugt farið. Það var eins og þessir tveir þættir ættu í stríði fremur en að mynda sterka og grípandi heild.

Hljóðfæraleikurinn var þó fagmannlegur. Allskonar hljóðasamsetningar, sem voru skapaðar með hefðbundnum hljóðfærum, en einnig ýmsu öðru, þ. á m. rafmagni, voru áheyrilegar. Hljóðfærin voru mögnuð upp í hljóðkerfi Tjarnarbíós og hljóðstjórnin var prýðileg, styrkleikajafnvægið fínt, heildarhljómurinn rétt stilltur. Maður bara spurði sjálfan sig: Til hvers?

Niðurstaða:

Vel flutt en náði þó aldrei flugi.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s