Bill Murray skemmtilegur en gat ekki sungið

Kammertónleikar, með meiru

4 stjörnur

Bill Murray las og söng tónlist eftir Gershwin, Bernstein, Morrison og fleiri. Jan Vogler lék á selló, Mira Wang á fiðlu, Vanessa Perez á píanó.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 14. júní

Bill Murray sem lék aðalhlutverkið í Groundhog Day, gömlu Ghostbusters myndunum og mörgum fleirum, gekk fram á sviðið í Eldborginni í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Hvað var hann að fara að gera? Maður átti helst von á að þetta yrði uppistand; hann er jú grínleikari.

Dagskráin kom hins vegar á óvart. Murray byrjaði á því að lesa úr viðtali við Ernest Hemmingway, þar sem hann var spurður hvort hann hefði einhvern tíman leikið á hljóðfæri. Hemmingway svaraði að hann hefði lært á selló en verið gjörsamlega hæfileikalaus. Eftir þennan stutta upplestur gekk sellóleikarinn Jan Vogler fram á sviðið. Hann lék prelúdíuna úr fyrstu sellósvítu Bachs af einstakri yfirvegun og tærleika, hljómurinn í sellóinu var djúpur, breiður og hlýr.

Þetta setti tóninn fyrir restina af kvöldinu. Murray las upp úr ýmsum öndvegisritum og inn á milli, eða um leið, lék Vogler, ásamt píanóleikaranum Vanessu Perez og fiðluleikaranum Miru Wang. Tónlistin endurspeglaði yfirleitt stemninguna í textunum.

Sumt virkaði prýðilega, eins og t.d. einlægur bútur úr Hjartarbana eftir James Fenimore Cooper við friðsælan kafla úr tríói eftir Schubert. Gaman var líka að „Ef Grant hefði drukkið í Appomatox“ eftir James Thurber, þar sem hann gerði grín að borgarastyrjöldinni amerísku. Við þennan kafla átti léttur og leikandi kafli úr sellósónötunni eftir Sjostakóvitsj einkar vel við. Moon River eftir Henry Mancini passaði einnig við Stikkilsberja-Finn eftir Mark Twain, enda er upphaflegi söngtextinn um bernskuminningar í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Hljóðfæraleikurinn var frábær. Vogler var með allt á hreinu og píanóleikur Perez var glitrandi, líflegur og nákvæmur í senn. Fiðluleikur Wang einkenndist af safaríkum hljómi og einbeittri túlkun í hvívetna.

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að Murray söng mörg lög, og það fyrsta var It Ain´t Necessarily So úr Porgy og Bess eftir Gershwin. Hann gerði það fjarskalega illa. Takturinn vafðist fyrir honum og nóturnar voru fleiri óhreinar en hreinar. Ég hélt fyrst að hann væri að gera að gamni sínu, en svo kom í ljós að honum var fyllsta alvara. Án efa var þetta versti flutningur á þessu lagi sem heyrst hefur í lengri tíma. Ýmis önnur lög voru sama marki brennd, þau voru afleitlega flutt.

Bestur var Murray í lagi eftir Van Morrison, When Will I Learn to Live in God. Hrár söngurinn og tilfinningarík túlkunin hæfði laginu ágætlega. I feel Pretty úr West Side Story eftir Bernstein var líka fyndið. Söngurinn var vissulega gallaður, en leikrænir tilburðir Murrays um leið og hann söng hittu beint í mark.

Kvöldið var samt ekki leiðinlegt þrátt fyrir vondan söng. Skemmtileg nærvera Murrays gerði að verkum að honum fyrirgafst takmarkanir hans sem söngvara. Á vissan hátt var ánægjulegt að sjá Hollywood stjörnu gera sig að fífli, það var eitthvað heiðarlegt við það! Murray var bara hann sjálfur, með kostum sínum og göllum. Þetta tvennt, barnsleg einlægni og framúrskarandi hljóðfæraleikur var mögnuð blanda á sinn hátt. Fagnaðarlæti áheyrenda og ótal aukalög enduspegluðu það svo sannarlega.

Niðurstaða:

Skemmtilegt kvöld, hljóðfæraleikurinn var glæsilegur og Bill Murray var heillandi, þótt hann kynni ekki að syngja.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s