Afmæli fagnað með Mozart

4 stjörnur

Kammertónleikar

Guðný Guðmundsdóttir og Delana Thomsen fluttu tónlist eftir Mozart.

Hannesarholt

sunnudaginn 24. júní

Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari var aðeins 26 ára þegar hún tók við stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ungur aldur hennar vakti athygli, en ekki síður að hún var kona. Kannski voru því einhverjir sem efuðust um getu hennar til að valda starfinu, en hún sannaði sig heldur betur. Hún gegndi stöðunni allt til ársins 2010 og var afar farsæl. Á þessu ári fagnar hún sjötugsafmæli og af því tilefni hyggst hún halda tónleikaröð í Hannesarholti þar sem hún mun leika öll verk Mozarts fyrir fiðlu og píanó. Þetta eru sex tónleikar og aldrei sami píanóleikarinn. Á tónleikunum í hádeginu á sunnudaginn kom hin bandaríska Delana Thomsen fram með Guðnýju, en hún hefur leikið af og til með henni í fjölmörg ár.

Mozart var undrabarn og farinn að semja músík á sama aldri og önnur börn eru að uppgötva legokubba. Á hans mælikvarða var hann orðinn aldurhniginn þegar hann samdi fyrsta verkið á tónleikunum, tíu ára gamall! Þetta var sónata í Es-dúr KV 26 (KV er skammstöfun fyrir Köchel Verzeichnis, þ.e. skrá Köchels, sem raðaði öllum tónsmíðum Mozarts í tímaröð að honum gengnum). Tónmálið er furðu þroskað fyrir svo ungan dreng, og sónatan lék í höndunum á hljóðfæraleikurunum. Túlkunin var stílhrein, samspilið nákvæmt, hröð tónahlaup skýr og jöfn, stemningin lífleg, akkúrat eins og hún átti að vera.

Hlutur píanistans, bæði hér sem og annars staðar á tónleikunum, var veigamikill. Píanóröddin er í fyrirrúmi, fiðlan skreytir, bætir við, undirstrikar, en er sjaldan í einleiksrullu. Píanóverk voru vinsæl í tíð Mozarts, og reyndar allar götur síðan. Það að bæta einfaldri fiðlurödd við þýddi að áhugafiðluleikarar gátu fengist við tónlistina líka, því hún var ekki of erfið. Slíkt fyrirkomulag jók mjög á sölu nótnabókanna og allir græddu.

Í næstu tónsmíð dagskrárinnar, 12 tilbrigðum við franskt stef, var stórt hlutverk píanóleikarans áberandi. Eitt af tilbrigðunum var í einleiksformi, þ.e. fiðlan kom þar hvergi nærri. Delana lék af fagmennsku, en stundum hefði þó meiri léttleiki verið ákjósanlegur, auk þess sem trillur voru oftar en ekki heldur hægar. Guðný var hins vegar með allt sitt á hreinu, leikur hennar var einbeittur og fágaður.

Tilbrigðin voru fjölbreytt. Stefið franska var ofureinfalt, nánast eins og Gamli Nói. Það er til marks um snilld Mozarts hve honum tókst þarna að búa til stórfenglega list úr fátæklegum efniviði. Þetta er einmitt eitt af einkennismerkjum hans sem tónskálds. Stef hans sjálfs eru kannski bara brotinn hljómur, hálfur tónstigi, ofurlítil hending, en úr þeim verður til heil sinfónía eða ópera.

Tvö agnarlítil verk, KV 404, voru næst á efnisskránni, bæði ágætlega flutt, en lokaatriðið var sónata í C-dúr KV 296. Hún er mun þroskaðri en sú fyrsta sem leikin var á tónleikunum. Píanóið er í forgrunni, vissulega, en fiðluröddin er engu að síður mikilvæg líka, sérstaklega í forkunnarfögrum hæga kaflanum. Hér hefði píanóleikurinn á tíðum mátt vera fínlegri, og aftur voru trillur kynlega þunglamalegar. Að öðru leyti var flutningurinn fínn, samspilið var agað og fiðluleikurinn kröftugur og glæsilegur.

Niðurstaða:

Skemmtilegir tónleikar með flottri tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s