Risi, örn, dreki, naut og illgjarn dvergur

3 stjörnur

Píanótónleikar

Verk eftir Liszt, Ravel og Vincent van Gelder í flutningi hins síðastnefnda. Myndlist: Natalie van Gelder.

Kaldalón í Hörpu

laugardaginn 30. júní

Hvað eiga hafmeyja, hengdur maður og illgjarn dvergur sameiginlegt? Jú, þau eru öll viðfangsefni franska tónskáldsins Maurice Ravel í píanóverkinu Gaspard de la Nuit. Það er í þremur köflum sem eru innblásnir af ljóðum Aloysiusar Bertrand. Hið fyrsta er um hafmeyju sem seiðir til sín dauðlega menn. Næst er dregin upp mynd af aftöku við rautt sólarlag. Þriðja ljóðið er um einhverskonar púka sem veldur gríðarlegum usla hjá saklausu mannfólkinu.

Hollenski píanóleikarinn Vincent van Gelder lék þessa tónsmíð Ravels á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á laugardaginn. Túlkun hans var kraftmikil og gædd viðeigandi stemningu; söngur hafmeyjunnar var heillandi og munúðarfullur, senan við gálgann tregafull og púkinn ógnandi.

Tæknilega séð var leikurinn þó ekki alltaf ásættanlegur. Talsvert er um hröð tónahlaup og allskonar skraut sem krefst nákvæmni og hana vantaði stundum. Í tónleikaskránni stóð að Gelder hefði lent í slysi sem varð þess valdandi að hann missti næstum vísifingur vinstri handar. Vel heppnuð skurðaðgerð bjargaði honum og hann náði nánast fullum bata. Kannski var þetta ástæðan fyrir því að tæknileg hlið tónlistarinnar var ekki eins og best var á kosið. Gelder virtist þó eiga í erfiðleikum með hægri hendina líka, en honum er vorkunn; Gaspard de la Nuit er eitt vandasamasta píanóverk tónbókmenntanna.

Gelder lék einnig tvær tónsmíðar eftir Liszt, Liebestraum og Aufenthalt, en sú síðarnefnda er útsetning Liszts á söngljóði eftir Schubert. Túlkunin var skáldleg og þrungin innblæstri, helst mátti finna að leik hraðra nótnaruna í Liebestraum, sem var nokkuð loðinn.

Forvitnilegasti hluti tónleikanna var samruni tónlistar og myndlistar, en um hann snerist dagskráin eftir hlé. Þrettán ára dóttir píanóleikarans, Natalie van Gelder, sýndi málverk eftir sig sem varpað var á tjald fyrir ofan sviðið. Faðirinn lék við þau frumsamda tónlist. Natalie er ákaflega hæfileikarík og efnileg, enda hefur hún þegar unnið til verðlauna. Málverkin hennar voru hvert öðru flottara.

Forsaga málsins er sú að Gelder fjölskyldan hefur komið til Íslands margoft, og þjóðsagnaheimur landsins, sérstaklega allt sem varðar landvættina, varð feðginunum innblástur. Natalie teiknaði inn í ljósmyndir af náttúru Íslands ýmiss konar furðuverur, og Vincent samdi við myndirnar rómantíska, tilþrifaríka tónlist í anda Liszts og samtíðarmanna hans. Þetta kom vel út á tónleikunum. Tónlistin var stórbrotin og magnaði upp stemninguna í myndlistinni, og myndmálið setti píanóleikinn ætíð í rétt samhengi. Útkoman var óneitanlega skemmtileg.

Niðurstaða:

Tæknilegar hliðar tónlistarflutningsins voru ófullkomnar, en túlkunin var sannfærandi. Samruni tónlistar og myndlistar eftir hlé var áhrifamikill.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s