Konur á föstudeginum þrettánda

4 stjörnur

Söngtónleikar

Sönghópurinn Olga (Jonathan Ploeg, Arjan Lienaerts, Matthew Lawrence Smith, Philip Barkhudarov og Pétur Oddbergur Heimisson) flutti blandaða dagskrá helgaða konum.

Hafnarborg

föstudagurinn 13. júlí

Nöfn á tónlistarhópum hér á landi voru lengi afar formleg, svo sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Tríó Reykjavíkur og þar fram eftir götunum. Nú er öldin önnur. Einn fremsti strengjakvartett landsins heitir bara Siggi. Einnig er til Sönghópurinn Olga, sem samanstendur eingöngu af karlmönnum, fimm talsins. Hann tróð upp á tónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg á föstudagskvöldið. Dagskráin var í takt við nafnið, helguð konum og feminisma. Tónleikarnir báru yfirskriftina „It‘s a Woman‘s World.“

Þetta var föstudagurinn þrettándi. Ekkert óhapp átti sér stað á tónleikunum, en sviðsmyndin var engu að síður óheppileg. Á meðan sungin voru lög eftir hvert kventónskáldið á fætur öðru, gláptu á mann gamlir karlar í jakkafötum. Hafnarborg er fyrst og fremst gallerí og á veggnum fyrir ofan sviðið var samansafn af stífum og litlausum portettmyndum. Það var eins og karlarnir þar væru að segja: Syngið bara eins og þið getið um einhverjar kerlingar, en það eru við sem drottnum!

Burtséð frá sviðsmyndinni, þá voru tónleikarnir skemmtilegir. Þeir hófust á laginu O Frondens Virga eftir Hildegard af Bingen, sem var uppi á 12. öld. Hún var snillingur og tónlistin hennar er í senn upphafin og full af dulúð. Yfirleitt heyrir maður lagið sungið af konum, en Olga var með allt á hreinu, söngurinn var vandaður og túlkunin þrungin andakt.

Næsta lag var af allt öðru sauðahúsi, Feelin‘ Good eftir Anthony Newley eins og Nina Simone söng það. Takturinn var líflegur, söngurinn kröftugur og yfirbragðið kímið.

Húmorinn sveif yfir vötnum megnið af dagskránni, sem var skemmtilega fjölbreytt og á köflum tilraunakennd. Eitt af fáum lögum eftir karla var Madamina úr Don Giovanni eftir Mozart. Þar eru sigrar hins samviskulausa flagara tíundaðir, til að sýna hvað konur hafa þurft að þola í gegnum tíðina. Venjulega er arían sungin af einum söngvara. Hér skiptu liðsmenn Olgu rullunni á milli sín, og rödduðu undirspilið í leiðinni. Fyrir vikið var arían nánast óþekkjanleg. Kannski sneri Mozart sér við í gröfinni, en hverjum er ekki sama? Túlkunin var glettin og kom sífellt á óvart; greinilegt var að tónleikagestir skemmtu sér konunglega.

Hér er ekki pláss til að telja upp allt á dagskránni, en söngurinn var ætíð fallega mótaður. Smæstu blæbrigði voru oftast prýðilega útfærð. Ég hef fylgst með Olgu síðan hópurinn kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum, og auðheyrt er að hann er í sókn. Fyrir skemmstu var skipt um tvo söngvara; þeir Arjan Lienaerts og Matthew Lawrence Smith eru nýir liðsmenn. Þeir eru báðir afar sterkir og flottir söngvarar. Breytingin er góð, tónleikarnir nú voru þeir bestu sem ég hef heyrt hjá Olgu.

Niðurstaða:

Eldfjörug dagskrá, fjölbreytt lagaval, flottur söngur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s