Gersemar síðustu hundrað ára

4 stjörnur

Lög eftir íslensk tónskáld, flutt af Þóru Einarsdóttur, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Ástu Marý Stefánsdóttur, Ástríði Öldu Sigurðardóttur og Francisco Javier Jáuregui.

Hafnarborg

sunnudaginn 15. júlí

Maðurinn sem samdi þjóðsönginn þoldi ekki Ísland. Þetta var Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927), en hann flutti ungur til Kaupmannahafnar og síðar til Leipzig þar sem hann lagði stund á tónsmíðar. Ísland hafði ekki mikið aðdráttarafl eftir námið í heimsborgunum, enda tækifærin hér fá fyrir starfandi tónlistarmenn á þessum tíma. Það var ekki fyrr en árið 1922 að Alþingi veitti Sveinbirni heiðurslaun, og þá flutti hann til landsins og taldi sig alkominn. Honum fannst dvöldin þó óbærileg og flúði til Kaupmannahafnar þar sem hann lést fimm árum seinna.

Sveinbjörn átti tvö lög á tónleikum í Hafnarborg sem báru yfirskriftina Fullveldi 1918-2018; hápunktar íslenskrar söngsögu. Tónleikarnir voru lokahnykkurinn á veglegri sönghátíð sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir stjórnaði. Hún sjálf var jafnframt önnur aðalsöngkonan á tónleikunum, en hin var Þóra Einarsdóttir.

Auðvitað er umdeilanlegt hvað telst til hápunkta íslenskrar söngsögu. Sönglög þjóðarinnar eru ótrúlega mörg og sá sem raðar upp í slíka dagskrá hlýtur að standa frammi fyrir valkvíða. Dagskráin hér var þó býsna sannfærandi. Þarna var hið óhjákvæmilega Draumaland Sigfúsar Einarssonar, Kossavísur og Í dag skein sól eftir Pál Ísólfsson, Hjá lygnri móðu eftir Jón Ásgeirsson, og margt fleira. Öll lögin voru skemmtileg, enda var flutningurinn lifandi, einlægur og tilfinningaríkur.

Þær Þóra og Guðrún Jóhanna eru ólíkar söngkonur. Þóra, sem er sópran, hefur kraft og breidd, nær að túlka fínleg blæbrigði af einstakri fegurð, en sprengir svo hljóðhimnur án þess að hafa neitt fyrir því. Það gerði hún oftar en einu sinni á tónleikunum. Eitt það flottasta hjá henni var Mary Had a Little Lamb úr óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason; hvílík stígandi!

Guðrún Jóhanna mezzósópran hefur þrengra svið, en syngur ávallt af gríðarlegri tilfinningu það sem hún tekur sér fyrir hendi. Sum innhverfari lögin voru hrífandi í meðförum hennar, þ. á m.  Vöggukvæði Emils Thorddsen og Ave María Sigvalda Kaldalóns.

Þriðja söngkonan á tónleikunum var Ásta Mary Stefánsdóttir sópran. Hún hlaut fyrstu verðlaun í framhaldsflokki í Vox Domini, árlegri keppni Félags íslenskra söngkennara sem fram fór í janúar síðastliðnum. Ásta Mary hefur fallega, kröftuga, opna rödd sem unaður var á að hlýða. Hún söng m.a. fjörlegt lag eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Harald kjúkling við texta eftir Davíð Þór Jónsson.

Meðleikurinn á tónleikunum var í höndunum á Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara og Francisco Javier Jáuregui gítarleikara. Hljóðfæraleikurinn var í hvívetna nákvæmur og vandaður, en líka safaríkur og spennandi.

Gaman var að upplifa hve mikil gróska er í íslenskri sönglagasköpun á síðari tímum. Þarna voru afar fögur lög eftir Hauk Tómasson, Gunnar Þórðarsson, Tryggva M. Baldvinsson, að ógleymdum Atla Heimi Sveinssyni og Jórunni Viðar. Gömlu lögin klikkuðu ekki heldur. Ljóst er að framtíð íslenskrar tónlistar er björt.

Niðurstaða:

Flottur söngur og falleg lög, fínn hljóðfæraleikur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s