4 stjörnur
Kammertónleikar
Umbra Ensemble flutti tónlist úr gömlum handritum í eigin útsetningum.
Hannesarholt
fimmtudagurinn 26. júlí
Þegar gengi krónunnar hrundi og túristar byrjuðu að streyma inn í landið, vildu allir græða. Tónlistarfólk var þar á meðal. Nokkuð fór að bera á geisladiskum þar sem íslensk þjóðlög voru borin fram í sérkennilegum búningi. Keppt var í frumleika; ef umgjörð laganna var nógu nýstárleg var sala geisladiskanna tryggð. Eða hvað?
Satt best að segja voru margir þessara geisladiska óttalega misheppnaðir. Sama verður ekki sagt um þjóðlagaútsetningar sem heyrðust á tónleikum í Hannesarholti á fimmtudagskvöldið. Fram kom fjögurra kvenna tónlistarhópur sem kallar sig Umbra Ensemble. Efnisskráin var fjölbreytt, flutt voru íslensk þjóðlög og lög úr gömlum, evrópskum handritum.
Útsetningarnar voru allar eftir konurnar sjálfar. Það voru Alexandra Kjeld, Arngerður María Árnadóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Lilja Dögg var aðalsöngvarinn, en hinar tóku líka undir af og til, þó hlutverk þeirra hafi fyrst og fremst verið hljóðfæraleikur.
Áhrifamesta útsetningin á íslensku lögunum var Fagurt syngur svanurinn, um stúlku sem biður stjúpmóður sína að ráða drauminn sinn. Arngerður María lék á keltneska hörpu og mjúkur leikurinn skapaði draumkennt andrúmsloft. Fiðla Guðbjargar Hlínar óf sig svo um hörpuhljómana. Hún myndaði líka innblásna og heillandi mótrödd við sjálfa sönglínuna sem Lilja Dögg söng af sannfærandi tilfinningu. Kontrabassi Alexöndru kom inn á hárréttu augnabliki. Útkoman var yndislega töfrandi.
Í heild voru tónleikarnir forvitnilegir. Á efnisskránni var m.a. lag sem er eignað Önnu Boleyn þegar hún beið dauða síns. Hún var eiginkona Hinriks áttunda Englandskonungs, ekki Ríkarðs eins og sagt var í kynningunni. Hjónabandið var ömurlegt og á endanum lét Hinrik hálshöggva hana. Lagið var tregafullt og plokkaðir fiðlu- og kontrabassastrengir, ásamt hörpunni, voru áleitnir, alvörugefnir og grípandi. Þéttraddaður samsöngur bjó líka til spennandi litbrigði.
Flutningurinn gervalla tónleikana var ætíð þrunginn viðeigandi innlifun. Sumt hefði að vísu mátt vera hreinna, en þar sem útsetningarnar voru áhugaverðar og rétta stemningin var ávallt til staðar gerði það lítið til.
Stutt athugun leiddi í ljós að Umbra Ensemble er ekki á Spotify. Vonandi verður úr því bætt, falleg tónlistin og frábærar útsetningarnar eiga skilið að heyrast sem víðast.
Niðurstaða:
Glæsileg tónlist og líflegur flutningur gerði tónleikana einkar skemmtilega.