4 stjörnur
Sinfóníutónleikar
Verk eftir Mozart, Tarrodi og Beethoven. Orkester Norden lék. Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson. Stjórnandi: Olof Boman.
Norðurljós í Hörpu
miðvikudaginn 22. ágúst
Byltingarmaðurinn og Sovétleiðtoginn Vladimir Lenin var hörkutól. Hann bjó þó yfir veikleika. Það var sónata nr. 23 eftir Beethoven. Hún gengur undir nafninu Appassionata, sem þýðir „hin ástríðuþrungna.“ Lenin hafði sérstakt dálæti á sónötunni og gat hlustað á hana á hverjum degi. Hann taldi hana samt varasama því hún kallaði fram í honum góðmennsku og löngun til að láta vel að fólki. Það hæfði ekki beint leiðtoga sem þurfti að stjórna með járnkrumlu.
Annað verk sem Beethoven samdi á svipuðum tíma var sinfónía nr. 3, Hetjusinfónían svokallaða. Hún hefur án efa líka góð áhrif á fólk. Tónlistin er full af óvæntum uppákomum og spennandi framvindu; stefin eru guðdómleg. Verkið var á dagskránni hjá Orkester Norden. Það er kammersveit sem samanstendur eingöngu af ungum og bráðefnilegum, norrænum hljóðfæraleikurum. Tónleikarnir fóru fram í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudagskvöldið, og stjórnandi var Olof Boman.
Flutningurinn var yfirleitt prýðilegur. Upphafið var að vísu dálítið órólegt og nokkrir hnökrar voru áberandi. Hraðinn í fyrsta kaflanum var líka ansi ýktur og fyrir bragðið skorti vissan tignarleika í túlkunina. Hins vegar var leikurinn ferskur og ákafur, og því komst mögnuð tónlistin ágætlega til skila þrátt fyrir allt. Eins og Lenin þá langaði mann mest til að strjúka næsta tónleikagesti á meðan sinfónían var flutt.
Rannsóknir hafa sýnt að ómstríð tónlist hefur ekki svona góð áhrif. Í vísindagrein á bandaríska líftækniupplýsingavefnum kemur t.d. fram að hún eykur á ótta og spennu. Verk eftir Andreu Tarrodi, Paradísarfuglar II, var þessu marki brennt. Það samanstóð af löngum hljómum sem oftar en ekki voru ómstríðir. Tónlistin var engu að síður athyglisverð, hljómarnir voru seiðandi og laghendingarnar áleitnar. Útkoman var eins og sífelldur kliður í ótal fuglum. Það var fallegt á sinn hátt, þó e.t.v. hefði mátt vinna betur úr tónhugmyndunum, fara með þær lengra, skapa meiri frásögn.
Hafi tónsmíð Tarrodi ekki verið sérlega hvetjandi til gæsku, þá var annað uppi á teningnum í píanókonsertinum nr. 23 eftir Mozart. Víkingur Heiðar Ólafsson lék þar einleik. Bæði var tónlistin þrungin innileika, og svo var flutningurinn frábær. Einleikurinn var tær og agaður, en gæddur skemmtilegri stígandi. Andstæður hins hástemmda hæga kafla og ofurfjörugs lokaþáttar voru áhrifamiklar. Hápunkturinn í lokin var glæsilegur. Hljómsveitin spilaði líka mjög vel. Stundum hefði mátt heyrast meira í fiðlunum í samanburði við blásarana, en í það heila var leikurinn markviss og flottur. Ég veit ekki hvað Lenin fannst um þennan konsert Mozarts; hann kallar ekki bara fram væntumþykju, heldur gerir mann bókstaflega væminn.
Niðurstaða:
Hljómsveitin spilaði oftast ágætlega og einleikurinn var í fremstu röð.