5 stjörnur
Rokktónleikar
Skálmöld ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerkórnum Hymnódíu og Barnakór Kársnesskóla. Bernharður Wilkinson stjórnaði.
Eldborg í Hörpu
föstudaginn 24. ágúst
Í myndbandi sem farið hefur víða á netinu segir Bergþór Pálsson söngvari frá því hvernig hann kom sér í form. Þar skipti sálfræðin meginmáli, því ef fólk er ekki rétt innstillt gerist fátt. Bergþór fór m.a. alltaf í svokallaða sigurstöðu í tvær mínútur á morgnana. Hann stóð teinréttur með hendur beint upp í loft. Rannsóknir hafa sýnt að staðan eykur testósterón, framkallar sigurtilfinningu og sjálfsöryggi.
Ég sá áheyrendur fara aftur og aftur í þessa stöðu á tónleikum Skálmaldar í Eldborginni í Hörpu á föstudagskvöldið. Það var eins og fólk væri að fagna marki landsliðsins í fótbolta. Tónleikarnir einkenndust af gríðarlegum krafti og glæsileik.
Tónlist Skálmaldar er innblásin af norrænni goðafræði. Freistandi er að setja hana í samhengi við önnur tónskáld sem fjölluðu um þennan sama menningararf. Koma þá Richard Wagner og Jón Leifs fyrstir upp í hugann. Wagner samdi stórvirkið Niflungahringinn, fjórar óperur sem segja frá goðunum og örlögum heimsins. Jón var á svipuðum slóðum í tónlist sinni, en á meðan Wagner var fullur af göfgi og margþættum reynsluheimi mannsins, var Jón miklu frumstæðari. Tónlist hans er hrjúf, og koma dulúð og náttúrukraftar fyrst og fremst við sögu. Skálmöld er ennþá afmarkaðri, því þó yrkisefnið sé um allt mögulegt, þá er stemningin að mestu leyti eins og í miðri orrustu. Söngurinn er sjaldnast söngur, hann hljómar eins og hávært urr eða öskur.
Tónleikarnir voru magnaðir, ekki síst vegna þess að Sinfóníuhljómsveit Íslands lék með Skálmöld og hún jók áhrifin upp úr öllu valdi. Slík blanda virkar ekki alltaf; minnistæðir eru tónleikar hljómsveitarinnar Hjaltalín sem kom fram með Sinfóníunni fyrir nokkrum árum. Þar bjagaði Sinfónían fíngerða tónlist Hjaltalín, ýkti hana svo útkoman var fáránleg. Ekkert slíkt var upp á teningnum nú. Skálmöld byggir aðallega á ofsa, og með fullum mætti Sinfóníunnar á bak við sig var tónlistin eins og náttúruhamfarir, manni varð hreinlega um og ó.
Ekki bara það, þrír kórar komu líka fram á tónleikunum. Þetta var Karlakór Reykjavíkur, Kammerkórinn Hymnódía og Barnakór Kársnesskóla. Heildaráhrifin voru tröllaukin og rosaleg; söngurinn var ótrúlega voldugur.
Bernharður Wilkinson stórnaði öllu saman og gerði það af mikilli fagmennsku. Kórar og sinfóníuhljómsveit voru í prýðilegu jafnvægi, og Skálmöld sjálf sló ekki feilnótu. Sinfónískar útsetningar Haraldar Vignis Sveinbjörnssorn voru snyrtilegar og úthugsaðar, því afraksturinn var ætíð sannfærandi og máttugur.
Á bílastæðinu á undan tónleikunum rakst ég á fiðluleikara sem sagði mér að hún hefði gleymt eyrnatöppunum í bílnum sínum og væri að sækja þá. Hávaðinn væri ægilegur á sviðinu. Hann var líka töluverður úti í sal, svo mjög að maður var hálf heyrnarskertur lengi á eftir þessari einstöku skemmtun, ha.
Niðurstaða:
Stórfenglegir tónleikar, Skálmöld var frábær og sinfóníuhljómsveit og kórar voru með allt á hreinu.