Spáð í vetrardagskrá Sinfóníunnar

Dag einn árið 1876 komu saman nokkrir blásturshljóðfæraleikarar í Reykjavík og héldu tónleika undir stjórn Helga Helgasonar tónskálds. Skömmu síðar birtist gagnrýni í Þjóðólfi og þar var sagt frá því að tónlistarmennirnir hefðu sungið inn í hljóðfærin sín. Gagnrýnandanum fannst það óskaplega spaugilegt og taldi að svona píp ætti varla framtíð fyrir sér.

Annað kom á daginn. Íslenskt tónlistarlíf hefur vaxið með undraverðum hraða síðan 1876 og hefur aldrei verið eins blómlegt og nú. Vetrardagskráin framundan hjá Sinfóníuhljómsveitar Íslands er einkar spennandi. Þar er eitthvað fyrir alla sem sækja slíka tónleika. Sívinsælir einleikskonsertar, voldugar sinfóníur, litrík tónaljóð og athyglisverð nútímatónlist.

Sjostakóvitsj og baráttan við Stalín

Rússnesk nýklassík er áberandi á vetrardagskránni. Það byrjar strax með tónleikum Ungsveitarinnar 23. september, en hún er einskonar afkomandi Sinfóníuhljómsveitar æskunnar, sem var áberandi í tónleikalífinu fyrir margt löngu. Ungsveitin samanstendur af um 100 efnilegum ungmennum sem njóta leiðsagnar færustu fagmanna. Að þessu sinni er verkefnið fimmta sinfónían eftir Sjostakóvitsj, stórbrotin tónsmíð. Sjostakóvitsj samdi hana þegar Stalín var að hreinsa til rétt fyrir seinni heimstyrjöld og menn hurfu unnvörpum, voru myrtir eða sendir til Síberíu. Sjostakóvitsj hafði nýlega fengið á sig dembu neikvæðrar gagnrýni frá hinu opinbera og hann óttaðist um líf sitt. Sinfónían var kröftugt andsvar við þessari gagnrýni, og hún vakti svo mikla hrifiningu við frumflutninginn að fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna.

Önnur sinfónía eftir Sjostakóvitsj verður líka á dagskránni, sú tíunda, að þessu sinni hjá hljómsveitinni sjálfri. Hún verður leikin á tónleikum 11. október. Sinfónían var frumflutt 1953, sama ár og Stalín dó og fór til helvítis. Sumir hafa haldið fram að tónsmíðin sé hugleiðing og uppgjör við einræðisherrann. Hún er í öllu falli sérlega áhrifamikil. Á sömu tónleikum verður líka fluttur fiðlukonsertinn eftir Tsjajkovskí, einstaklega skemmtilegt verk sem skartar guðdómlegum laglínum og kröftugri uppbyggingu.

Fleira úr sömu áttinni verður flutt í vetur, þ. á m. Vorblótið eftir Stravinskí. Það verður á dagskrá 20. og 21. febrúar. Vorblótið er ballett sem var svo byltingarkenndur að eftir frumflutninginn í París olli hann slagsmálum í salnum. Menn höfðu aldrei heyrt annað eins, bæði var tónmálið villimannslegt og svo var dansinn afar nýstárlegur. Á sömu tónleikum verður frumfluttur fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason, eitt af okkar frambærilegustu tónskáldum. Skemmst er að minnast hinnar frábæru óperu eftir hann, sem sýnd var á Listahátíð í vor. Einnig verður Fratres eftir Arvo Pärt á dagskránni, draumkennd tónsmíð sem var mjög áberandi í kvikmyndinni Mother Night eftir skáldsögu Kurts Vonnegut. Það er himnesk tónlist sem tilhlökkun er að heyra á lifandi tónleikum.

Blindur einleikari

Nokkrir öflugir einleikarar koma fram með hljómsveitinni, bæði innlendir og erlendir. Undirritaður missti því miður af hinum japanska píanóleikara Nobuyuki Tsujii þegar hann spilaði annan píanókonsertinn eftir Chopin. Hann fæddist blindur. Nú kemur hann aftur og í þetta skipti með annan píanókonsert Rakhmanínoffs í farteskinu. Enginn annar en Vladimir Ashkenazy stjórnar, sem sjálfur hefur einstakt lag á að túlka Rakhmanínoff. Tónskáldið lagðist í þunglyndi þegar illgjarn gagnrýnandi líkti fyrstu sinfóníunni hans við plágurnar sjö í Egyptalandi. Hann hætti að semja og missti alla trú á sjálfan sig. Loks var það geðlæknir sem dáleiddi hann til betra hugarfars og upp úr því samdi hann annan píanókonsertinn, og fjölmörg verk eftir það. Spennandi verður að heyra Tsujii leika, sem sjálfur hefur örugglega þurft að yfirvinna sálræn vandamál vegna fötlunar sinnar.

Annað á efnisskránni á þessum tónleikum er sinfónía nr. 2 eftir Sibelius, sem er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Hún byrjar á brotakenndum tónum og hljómum, en svo byrja stefin að renna saman og á endanum vex tónlistin upp í yfirgengilegan hápunkt, sem er eitthvert mesta alsælutripp tónbókmenntanna. Það er ekki hægt að hlusta á verkið án þess að fá gæsahúð.

Margir fleiri einleikarar og einsöngvarar munu troða upp með hljómsveitinni og maður tekur auðvitað sérstaklega eftir því þegar þeir eru íslenskir. Þóra Einarsdóttir mun syngja Richard Strauss þann 20. september, en Hallfríður Ólafsdóttir verður einnig áberandi, sem og Einar Jóhannesson, Judith Ingólfsson, Ari Þór Vilhjálmsson og Sigurgeir Agnarsson. Erlendir sólistar eru m.a. Anne Sofie von Otter, Isabelle Faust, Richard Goode og fleiri.

Nýir flautukonsertar

Allmörg samtímaverk, bæði innlend og erlend verða á dagskrá Sinfóníunnar í vetur. Þegar hefur Daníel Bjarnason verið nefndur, en einnig verður flautukonsert eftir gamla kempu, Jón Ásgeirsson, fluttur 24. janúar. Íslenskur einleikari verður þar í forgrunni, Freyr Sigurjónsson. Annar íslenskur flautukonsert verður fluttur á tónleikum á Myrkum músíkdögum, að þessu sinni eftir Þuríði Jónsdóttur, eitt af okkar fremstu tónskáldum. Þá má nefna nýtt verk eftir hina ungu og efnilegu Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, en það verður á dagskrá 29. mars.

Eins og venjulega eru mismunandi tónleikaraðir, sumar léttari en aðrir. Andrúmsloftið er alltaf líflegt á hinum árlegu Vínartónleikum, en svo mun Ari Eldjárni troða upp með Sinfóníunni í lok september. Hann er með dagsskrá sem er endurtekin frá því í fyrra vegna fjölda áskoranna. Ari er með fyndnari mönnum.

Hér er ekki pláss til að tíunda allt hið áhugaverða á dagsskrá Sinfóníunnar framundan. Áheyrendur eiga örugglega eftir að keppast við að fá miða á þá fjölmörgu tónleika sem fyrirhugaðir eru, og verður án efa slegist í miðasölunni. Gagnrýnandinn í Þjóðólfi hafði nefnilega ekki rétt fyrir sér þegar hann spáði að pípið í íslenskum hljóðfæraleikurum ætti enga framtíð fyrir sér; öðru nær eins og aðsóknin síðustu ár hefur sannað. Auðvitað er ekki allt gott sem hér ber fyrir eyru, en þegar það heppnast vel þá er það engu líkt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s