Var Bolero fyrsta einkenni heilasjúkdóms?

3 stjörnur

Verk eftir Berlioz, Ravel og Bartók. Sinfóníuhljómsveit Ísland lék. Einleikari: Renaud Capuçon. Stjórnandi: Yan Pascal Tortelier.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 6. september

Ég hef heyrt þá kenningu að Bolero eftir Ravel, sem var á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, hafi mögulega verið afleiðing heilabilunar. Fyrir þá sem ekki vita gerist ekkert í verkinu, nema að sama grípandi laglínan er endurtekin aftur og aftur. Hljóðfærasamsetningarnar eru þó mismunandi og smám saman vex tónlistin upp í magnaðan hápunkt. Ravel kláraði Bolero árið 1928, en ári fyrr voru vinir hans farnir að hafa áhyggjur af honum. Hann var orðinn svo utan við sig. Sjúkdómurinn versnaði og nokkrum árum síðar var hann alveg hættur að semja. Eitt af einkennunum var vaxandi málstol, sem stundum markast af sífelldum endurtekningum.

Þetta eru auðvitað bara vangaveltur. Bolero er í öllu falli vinsæl tónsmíð, því laglínan þar er svo flott að hún er þess virði að endurtaka. Yan Pascal Tortelier stjórnaði hljómsveitinni og gerði það af röggsemi, þó að einstaka blásarar hafi verið óhreinir. Steef van Oosterhout slagverksleikari var hins vegar með allt á tæru, en tromman hans var í burðarhlutverki frá byrjun. Í það heila var flutningurinn glæsilegur og kallaði fram verðskulduð fagnaðarlæti.

Annað verk eftir Ravel var leikið á tónleikunum, tríó fyrir píanó, fiðlu og selló í a-moll, hér í hljómsveitarútsetningu eftir Tortelier sjálfan. Í útsetningunni leikur strengjasveitin fiðlu- og sellórödd tríósins, en allar hinar hljóðfæragrúppurnar deila píanóinu á milli sín.  Aðalrökin fyrir því að umbreyta tríóinu á þennan hátt eru sú, að sögn Torteliers, að frönsk tónlist markast af blæbrigðum. Píanóið er hins vegar vélrænt hljóðfæri (að hans mati), sem býr langt í frá yfir sömu litamöguleikum og hljómsveitin. Um þetta má deila. Píanóið býr jú yfir takmörkunum, en fyrir vikið gefur það í skyn frekar en að það troði merkingunni ofan í hlustandann. Stundum er það miklu sterkara.

Útsetning Torteliers var í sjálfu sér haganlega gerð. Hún gekk bara allt of langt. Sérkenni píanósins eru hluti af sjarma upphaflegu tónsmíðarinnar, en hér var rödd þess ýkt og útbelgd. Það var gert með hvellum málmblæstri, agressífum trumbuslætti, þokukenndum hörpuhljómum, glimmerkenndri selestu, o.s.frv. Heildarútkoman var smekklaus og rembingsleg; hún lét ekki vel í eyrum.

Meira var varið í Ungverskan mars eftir Berlioz, sem var glæsilega leikinn þó lúðrablásturinn í byrjun hafi verið óhreinn. Annar fiðlukonsert Bartóks var líka frábær, en þar var Renaud Capuçon í einleikshlutverkinu. Konsertinn er innhverfur og einkennist af ljóðrænu sem er þrungin tilfinningum. Tónlistin er heillandi, ungversk þjóðlagastemning er aldrei langt undan, en framvindan er samt full af óvæntum uppákomum. Hljómurinn í fiðlu Capuçons var safaríkur og flottur. Hver einasta hending var fagurlega mótuð, túlkunin gædd innileika og sannfæringarkrafti. Það gerist varla betra.

Niðurstaða:

Smekklaus útsetning á tríói eftir Ravel kom illa út, en annar fiðlukonsertinn eftir Bartók var magnaður.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s