Eins og langt rifrildi

2 og hálf stjarna

Verk  eftir Luciano Berio og Egil Gunnarsson í flutningi Stirni Ensemble.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 9. september

Ég sá nýlega á YouTube viðtal við manninn sem getur talað hraðast í heimi. Hann fór með allan textann úr laginu Bad eftir Michael Jackson á nokkrum sekúndum en var samt skýrmæltur Það var ótrúlegt að heyra. Ég varð fyrir svipaðri upplifun á tónleikum Stirni Ensemble í Norðurljósum í Hörpu á sunnnudaginn. Björk Níelsdóttir sópran flutti sekvensu nr. 3 eftir ítalska tónskáldið Luciano Berio sem lést fyrir fimmtán árum síðan. Söngurinn var sérlega  tilraunakenndur og oftar en ekki gífurlega hraður. Rétt eins og hraðmælti maðurinn á YouTube var Björk þó afar skýrmælt, svo mjög að aðdáunarvert var. Útkoman var áhugaverð og skondin.

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að þrjár aðrar sekvensur eftir Berio voru fluttar á tónleikunum, hver annarri leiðinlegri. Berio var á tímabili undir miklum áhrifum af seríalismanum, sem hefur ávallt verið hatað tónlistarform meðal almennings. Hann fetaði síðar sínar eigin leiðir en andi seríalismans var samt aldrei langt undan í tónsmíðum hans.

Sekvensur Berios (nafnið þýðir runa eða röð) eru alls fjórtán og fyrir mismunandi hljóðfæri. Þær gera miklar tæknikröfur til flytjandans. Meðal annars þarf að láta tónlistina hljóma eins og hún sé fjölrödduð, þó slíkt sé í raun ekki mögulegt þegar einradda hljóðfæri er annars vegar. Dæmi um þetta er sekvensan fyrir klarinettu, þar sem sama laglínan er á kafla endurtekin á lágværum nótum. Inn á milli kemur hávær, hranalegur tónn eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta gerist aftur og aftur. Eftir nokkra stund deyr lága laglínan út en frekjulegi tónninn nær yfirhöndinni. Hann verður að mörgum tónum sem hoppa upp og niður eftir ómstríðum tónbilum. Þetta virkar eins og tveir hljóðfæraleikarar séu að spila, hver með sínu nefi. Engin harmónía er á milli þeirra, þvert á móti er andrúmsloftið einkar fráhrindandi, fullt af taugaveiklun og þráhyggju.

Svona var stemningin í þessum þremur verkum sem um ræðir, fyrir klarinettu, flautu og gítar. Skást var flautuverkið sem Hafdís Vigfúsdóttir lék, en það var tiltölulega stutt. Grímur Helgason flutti klarinettusekvensuna sem var mun langdregnari. Svanur Vilbergsson sá svo um gítarsekvensuna, einn hrærigraut af lítt áheyrilegum hljómum sem nístu mann inn að beini. Það var eins og að hlusta á langt rifrildi sem engin niðurstaða fékkst í.

Stutt tónsmíð eftir Egil Gunnarsson, sem bar nafnið Bið, var til allrar hamingju líka á efnisskránni. Um frumflutning var að ræða. Andrúmsloftið var heillandi ljóðrænt, allskonar fínleg blæbrigði drógu upp  fagurlega mótaða hljóðmymd. Björk söng og hinir hljóðfæraleikararnir spiluðu. Betur hefði samt verið ef söngkonan hefði staðið aðeins framar, í stað þess að vera bara við hliðina á hinum, því maður heyrði ekki orðaskil; söngurinn drukknaði í hljóðfæraleiknum. Textinn samanstóð af ljóði eftir Einar Braga og sennilega hefði átt að birta það í tónleikaskránni, sem var ansi snubbótt og með átakanlega litlum upplýsingum.

Niðurstaða:

Megnið af efnisskránni var ekki skemmtilegt, en frumflutningur á verki eftir Egil Gunnarsson heppnaðist vel.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s