3 og hálf stjarna
Verk eftir Weiner, Kodály og Elgar. Flytjendur: Anton Miller, Guðný Guðmundsdóttir, Rita Porfiris, Bryndís Halla Gylfadóttir og Bjarni Frímann Bjarnason.
Norðurljós í Hörpu
sunnudaginn 16. september
Í kvikmyndinni Close Encounters of the Third Kind, sem fjallar um undanfara þess að geimverur sækja okkur heim, kemur ungverska tónskáldið Zoltán Kodály við sögu. Aðferð hans til að kenna börnum tónlist er notuð í myndinni til að eiga samskipti við geimverurnar. Kodály er þó ekki eitt af þekktustu tónskáldunum, og tónlist hans er sjaldan flutt hér á landi. Hann var uppi á fyrri hluta aldarinnar sem leið, og rétt eins og samlandi hans, Bartók, var hann undir áhrifum ungverskrar þjóðlagahefðar.
Þessi áhrif voru greinileg í verkinu Szerenad fyrir tvær fiðlur og víólu, sem flutt var á upphafstónleikum vetrarins í Kammermúsíkklúbbnum í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn. Szerenad, eða kvöldlokka eins og orðinu hefur verið snarað yfir á íslensku, er í þremur köflum sem allir eru fullir af ákefð. Tónmálið er þéttofið og fjaðurmagnað, og merking hennar skilaði sér prýðilega á tónleikunum. Sá hluti síðasta kaflans þar sem músíkantarnir köstuðu eggjandi laglínunni á milli sín og líktu inn á milli eftir slagverkshljóðfærum, var einkar spennandi. Þau Anton Miller og Guðný Guðmundsdóttir léku á fiðlur en Rita Porfiris á víólu; túlkun þeirra var kraftmikil, samspilið nákvæmt og agað.
Annað ungverskt tónverk var leikið á tónleikunum, Dúó fyrir fiðlu og víólu eftir László Weiner. Hann var gríðarlega hæfileikaríkur og hefði e.t.v. orðið eitt af höfuðtónskáldum aldarinnar ef hann hefði ekki látið lífið í fangabúðum nasista tuttugu og átta ára gamall. Miller og Porfiris fluttu dúóið og gerðu það með afbrigðum glæsilega. Tónmálið er innblásið, laglínurnar eru sífellt að segja sögu, hvergi er dauður punktur. Hljóðfæraleikararnir misstu aldrei niður stemninguna; túlkunin var áleitin og þrungin sannfæringarkrafti. Tæknilegar hliðar; tónmótun, samspil, hröð tónahlaup og þess háttar voru með eindæmum vel af hendi leyst.
Lokaverkið á tónleikunum var stórt og mikið, kvintett fyrir píanó og strengjaleikara eftir Edward Elgar. Hann var uppi á árunum 1857-1934, á miklum umbrotatímum í tónlistarsögunni. Vinsældir hans voru gríðarlegar um tíma, en þegar kollegar hans voru farnir að vekja athygli fyrir athyglisverðar tilraunir, fór tónlist hans að virka gamaldags. Hann þróaðist lítið, og kvintettinn er frá því seint á ferli hans, þegar hann var farinn að endurtaka sig. Kvintettinn er vissulega stílhreinn og tignarlegur, en laglínurnar eru kynlega andlausar, klisjur frekar en skáldskapur.
Áðurnefndir strengjaleikarar léku verkið ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara, en Bjarni Frímann Bjarnason, píanóleikari og altmuligmand, sat við slaghörpuna. Flutningurinn var magnaður, samspilið tært, hraðar nótur skýrar, túlkunin full af ástríðum, en það var ekki nóg. Leikurinn dugði ekki til að lyfta músíkinni upp úr meðalmennskunni, og þegar upp var staðið var manni alveg sama, því miður.
Niðurstaða:
Tvö ungversk verk voru flott, en kvintett eftir Elgar náði aldrei flugi þrátt fyrir góðan vilja.