Magnaðir hápunktar framkölluðu gæsahúð

4 stjörnur

Verk eftir Strauss og Tsjajkovskí. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Einsöngvari: Þóra Einarsdóttir. Stjórnandi: Petri Sakari.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 20. september

Þegar skákeinvígi aldarinnar stóð yfir hér olli Bobby Fisher mikilli hneykslun með því að hella úr kókflösku yfir skyr og borða með bestu lyst. Þar blandaðist saman eitt helsta tákn íslenskrar menningar og bandarískur þjóðarósómi. Mér datt þetta í hug á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Fyrsta verkið á dagskránni var Till Eulenspiegel eftir Richard Strauss, um mann sem uppi var á 14. öld. Hann var sagður mikill prakkari og ólíkindatól, og um hann spunnust ótal ævintýri. Í verkinu blandast saman algerar andstæður alvarlegrar fagurtónlistar og kæruleysislegra barnalaga, rétt eins og skyrið og kókið hans Fishers.

Till Eulenspiegel er kröftug tónsmíð sem kemur stöðugt á óvart. Allskonar stef renna saman og magnast upp, en svo er þeim gefið langt nef, og eitthvað allt annað tekur við. Þetta kallar á snerpu og nákvæmni í flutningi, og stóð Sinfóníuhljómsveit Íslands fyllilega undir því. Hornleikurinn var hreinn og hnitmiðaður, og dillandi klarinettusóló var pottþétt. Samspil ólíkra hljóðfærahópa var flott og hljómsveitin í heild lék af sannfærandi innlifun undir stjórn Petris Sakari.

Ekki síðri voru hinir svokölluðu Fjórir síðustu söngvar eftir Strauss, sem á eftir komu. Þar söng Þóra Einarsdóttir einsöng. Yrkisefnið er dauðinn og eru táknmyndir úr náttúrunni áberandi. Yfirbragð tónlistarinnar er angurvært, og Þóra gerði henni fullkomin skil. Söngur hennar var tilfinningaríkur og margbrotinn, röddin gædd ótal litbrigðum. Hljómsveitin spilaði líka fallega. Áferðin var draumkennd og styrkleikahlutföll einsöngs og hljóðfæraleiks voru eins og best verður á kosið. Fiðlueinleikur konsertmeistarans var sérlega fagur.

Eftir hlé var flutt fimmta sinfónían eftir Tsjajkovskí. Hún byrjar mjög alvarlega. Tsjajkovskí hugsaði mikið um örlögin, hann þjáðist oft af þunglyndi, og samkynhneigð, sem hann fór leynt með, olli honum sálarangist. Í sinfóníunni heyrist sama stefið aftur og aftur í fleiri en einum kafla, og gengur í gegnum talsverðar umbreytingar. Það er þungbúið í inngangi fyrsta kafla, en þegar það birtist í lokakaflanum er það orðið sigri hrósandi. Stefið hefur verið kallað örlagastefið, því tónskáldið kallaði innganginn „algera uppgjöf fyrir örlögunum“ í glósubók áður en hann fór að semja sinfóníuna.

Tsjajkovskí var þarna undir áhrifum ungverska tónskáldsins Franz Liszt sem endurtók oft sömu stefin í ólíkum köflum sömu tónsmíðarinnar. Hann skapaði þannig áhrifameiri heildarsvip. Sinfónían eftir Tsjajkovskí er makalaust verk, fullt af dásamlegum melódíum og svo mögnuðum hápunktum að maður fær gæsahúð aftur og aftur. Flutningur hljómsveitarinnar var í fremstu röð undir öruggri stjórn Sakari. Hornsólóið í hæga kaflanum var himneskt, og blásararnir voru allir með sitt á tæru. Strengirnir voru hnausþykkir og munúðarfullir, og túlkunin var gædd ákefð og spennu sem var einstaklega ánægjuleg. Útkoman var stórbrotin og grípandi; Sinfóníuhljómsveit Íslands var greinilega í toppformi.

Niðurstaða:

Framúrskarandi flutningur á Tsjajkovskí og Strauss.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s