Betur má ef duga skal

2 stjörnur

Verk eftir Mamikó Dís Ragnarsdóttur, Svetlönu Veschagina, Leu Freire, Högna Egilsson og Benjamin Britten. Íslenskri strengir léku undir stjórn Ólafar Sigursveinsdóttur. Einsöngvari: Þorsteinn Freyr Sigurðsson. Hornleikur: Joseph Ognibene.

Salurinn í Kopavogi

sunnudaginn 30. september

Glöggum tónleikagestum með tóneyrað í lagi kann að hafa fundist Joseph Ognibene vera nokkuð falskur. Hann lék á horn á tónleikum í Salnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Flutt var serenaða eftir Britten, sem er fyrir tenór, strengi og horn. Nokkrir tónar í innganginum og eftirspilinu, þar sem hornið hljómaði eitt, virkuðu óhreinir. Þetta var þó eðlilegt. Verkið er samansafn af ljóðum sem öll fjalla um nóttina, bæði í jákvæðum og neikvæðum skilningi. Hornið á að vera einskonar veiðihorn sem ómar einmannalega úti í næturkyrrðinni, fyrst nálægt og svo langt í burtu. Britten vildi náttúrutóna hornsins, ekki þessa sem maður heyrir venjulega á sinfóníutónleikum, og þeir eru örlítið öðruvísi.

Söngvarinn í serenöðunni var Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór sem hefur ekki verið mjög áberandi, enda starfar hann aðallega erlendis samkvæmt tónleikaskrá. Vonandi mun það breytast því hann er magnaður söngvari. Söngur hans var tilfinningaþrunginn og blæbrigðaríkur, röddin kröftug og breið, og gædd aðdáunarverðum fókus.

Því miður er ekki hægt að segja það sama um hljómsveitina, Íslenska strengi. Hún  samanstóð af sautján strengjaleikurum undir stjórn Ólafar Sigursveinsdóttur. Okta- og heiltónskaladans eftir Mamiko Dís Ragnarsdóttur kom fjarskalega illa út. Tónlistin sjálf var létt og leikandi upp og niður framandi tónstiga; heildarmyndin var forvitnileg og kom á óvart. Kannski var einhver húmor í verkinu, en hann skilaði sér ekki í flutningnum. Svo til hver einasti tónn var óhreinn, samspilið loðið, tónmótunin hrá. Nú er ég ekki að segja að allir sautján hljóðfæraleikararnir hafi spilað illa, en strengjasveit er í eðli sínu viðkvæmt fyrirbæri. Ekki þarf nema örfáa skussa til að skemma heildarmyndina.

Svipað var uppi á teningnum hvað flest annað á tónleikunum varðaði. Svíta eftir Svetlönu Veschagina, einn af sellóleikurum hljómsveitarinnar, var stutt en hnitmiðuð, með úthugsaðri framvindu. Alma eftir Högna Egilsson var líka flott í sjálfu sér, lagræn og nánast rómantísk, en aldrei á neinn ódýran máta. Þvert á móti var tónmálið fullt af innblæstri og fegurð. Hvorugt verkið hljómaði þó vel á tónleikunum af ofangreindum ástæðum. Það stóð varla steinn yfir steini í flutningnum.

Furðulegt nokk þá kom hljóðfæraleikurinn einna skást út í hinu brasilíska Brincando com Theo eftir Leu Freire. Þar var ákafur dansrytmi í forgrunni. Heildarhljóminn skorti að vísu tærleika, en rytminn skilaði sér þolanlega. Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir, sem útsetti herlegheitin fyrir strengi, var einleikari og rödd fiðlunnar hennar var áleitin og markviss.

Efnisskráin sem slík var spennandi. Verkin eftir Högna og Mamiko voru frumflutt á tónleikunum, og tónsmíð Svetlönu hafði aðeins einu sinni áður verið leikin. Það fylgir því þó mikil ábyrgð að frumflytja. Slæm spilamennska gefur skekkta mynd af tónlistinni og getur jafnvel drepið hana í fæðingu. Vonandi á maður eftir að heyra verkin aftur, og þá í ákjósanlegri búningi.

Niðurstaða:

Glæstur söngur og góð tónlist, en slæmur strengjaleikur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s