Dragdrottningar Valhallar

Tónlist

4 stjörnur

Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson. Einsöngvarar: Guðmundur Karl Eiríksson, Margrét Hrafnsdóttir, Keith Reed, Agnes Thorsteins, Þorsteinn Freyr Sigurðsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Gunnar Björn Jónsson og Björn Þór Guðmundsson. Einnig söng Háskólakórinn og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins lék. Leikstjóri: Bjarni Thor Kristinsson. Stjórnandi: Gunnsteinn Ólafsson.

Norðurljós í Hörpu

föstudaginn 26. október

Ég las nýlega grein þar sem fram kemur að geðvonska geti verið holl. Hún á að hjálpa fólki að gera betri samninga, taka skynsamlegri ákvarðanir og minnka líkurnar á hjartaáfalli. Fólk sem er alltaf í góðu skapi er hins vegar í áhættuhópi. Það liggur ekki nægilega vel yfir smáatriðum, er trúgjarnt og sjálfhverft. Svo hefur það tilhneigingu til að borða og drekka of mikið.

Mér datt þetta í hug á óperunni Þrymskviðu í Norðurljósum í Hörpu á föstudagskvöldið. Efniviður óperunnar er úr Eddukvæðunum og guðinn Þór er í aðalhlutverki. Hann er í vondu skapi alla sýninguna. Jafnvel dulbúinn brúðarslöri er hann ekkert sérstaklega aðlaðandi. Þvert á móti er hann eins og hrjótandi risaeðla sem getur vaknað á hverri stundu. Meðhjálparar hans, þeir Heimdallur og Loki, eru líka viðskotaillir. En það gefur þeim drifkraftinn til að sigrast á erfiðleikum og þeir fara glaðir heim til sín í lok sögunnar. Pollýönnuhugarfar skilar þar engu.

Þrymskviða er eftir Jón Ásgeirsson, sem heldur upp á níræðisafmæli sitt um þessar mundir. Óperan fjallar um það þegar Þrymur þursadrottinn stelur hamri Þórs og vill ekki láta hann af hendi fyrr en hann fær Freyju fyrir eiginkonu. Þór dulbýr sig þá sem Freyja og með hjálp Loka og Heimdallar nær hann hamrinum. Þrymskviða er fyrsta íslenska óperan í fullri lengd og var frumflutt árið 1974. Sú útgáfa sem hér var sýnd er hins vegar talsvert endurbætt, svo í raun var um frumflutning að ræða.

Fé var greinilega af skornum skammti, en þar sem þetta var gamanópera var hægt að horfa fram hjá því. Þar má nefna að sviðsmyndin samanstóð aðallega af uppblásnum húsgögnum og risakoddum, sem var fyndið. Söngvararnir voru auk þess í nútímaklæðum, en samt voru dregnar upp áhrifaríkar andstæður með því að hafa æsina í fínum jakkafötum en þursana í subbulegum mótorhjólagöllum. Verra var að hamar þórs, sem var tekinn upp úr veglegri kistu í lok sýningarinnar, var ekkert annað en lítið hálsmen í keðju. Það var slæmur antíklímax. Var virkilega ekki hægt að tjasla einhverju saman og mála það?

Bjarni Thor Kristinsson var leikstjóri og vann verk sitt ágætlega, því hvergi var dauður punktur í sýningunni. Einsöngvararnir stóðu sig mjög vel í leik og söng. Guðmundur Karl Eiríksson var flottur Þór, röddin hraustleg og kröftug. Þorsteinn Freyr Sigurðsson var líka prýðilegur sem Heimdallur og það sópaði að Keith Reed í hlutverki Þryms. Agnes Thorsteins var skemmtilega ögrandi í hlutverki Grímu, systur hans. Og Margrét Hrafnsdóttir var svipmikil Freyja þó hún hafi verið eilítið óörugg í byrjun.

Eyjólfur Eyjólfsson var frábær. Bæði var söngurinn stórfenglegur og hann var einkar trúverðugur í hlutverki hins slóttuga Loka. Ekki síst þegar hann var í dragkenndu gervi þjónustustúlku en þá stal hann eftirminnilega senunni.

Sinfóníuhljómsveit unga fólksins spilaði, sem var dálítið óheflað eins og við er að búast þegar nemendur leika. Sömu sögu er að segja um Háskólakórinn, sem samanstendur af misskóluðu áhugafólki. Leik- og sönggleðin fleytti þeim engu að síður yfir tæknilega örðugleika. Þeim tókst svo um munaði að magna upp réttu stemninguna undir líflegri stjórn Gunnsteins Ólafssonar.

Þrymskviða er stórskemmtileg og áhrifarík ópera. Ekki aðeins eru laglínurnar það grípandi að þær ómuðu lengi í höfði mínu eftir sýninguna, heldur er uppbygging verksins afar sannfærandi. Flæðið í tónlistinni er óheft, stígandin í henni markviss og spennandi. Sumir kaflarnir framkölluðu gæsahúð; hvílíkir hápunktar! Óskandi væri að Þrymskviða yrði sett upp aftur og þá í stærri sviðsetningu; hún á það svo sannarlega skilið.

Niðurstaða: Einsöngvarar voru flottir og tónlistin var stórbrotin.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s