5 stjörnur
Hershöfðinginn (the General) frá 1926, sýnd við lifandi tónlist Davíðs Þórs Jónssonar. Flytjendur: Davíð Þór og Lúðrasveitin Svanur undir stjórn Carlosar Caro Aguilera.
Norðurljós í Hörpu
laugardaginn 17. nóvember
Í annarri Twin Peaks þáttaröðinni er maður nokkur búinn að missa vitið. Hann ver öllum tíma sínum í að endurskapa bandarísku borgarastyrjöldina með tindátum og tilheyrandi. Á táknrænan hátt er hann þannig að heyja sína innri baráttu. Á einum tímapunkti segir hann: „Aðeins Guð getur stoppað okkur nú, og ég trúi því að Guð sé suðurríkjamaður“. Geðlæknirinn hans stendur hjá, hann tekur þátt í leiknum og hrópar: „Hallelúja!“
Mig langaði líka til að standa upp og hrópa hallelúja á tónleikum Lúðrasveitarinnar Svans í Norðurljósum í Hörpu á laugardaginn. Þar var sýnd kvikmyndin Hershöfðinginn með Buster Keaton, ein af perlum þöglu myndanna. Tónlistin var eftir Davíð Þór Jónsson og hann tók líka þátt í flutningi hennar, fyrst og fremst með píanóleik, en svo spilaði hann einnig á banjó. Myndin fjallar um tiltekin átök suður- og norðurríkjamanna með húmorísku ívafi, og þeir fyrrnefndu vinna þá baráttu. Lestir leika mikilvæga rullu og stór partur myndarinnar er eltingarleikur á teinunum þar sem lestunum er ekið fram og til baka með allskonar uppákomum. Það er ótrúlega magnað.
Margir hafa spreytt sig á því að semja tónlist við Hershöfðingjann á undanförnum árum. Tónlist Davíðs Þórs fyrir lúðrasveitina var stórskemmtileg, glannaleg og full af gleði. Hún var líka hóflega endurtekningarsöm til að skapa samfellu í stemningunni; þráðurinn slitnaði aldrei. Nema kannski þegar Davíð Þór fór að spila einn á píanóið, sem var nokkuð langsótt og virkaði a.m.k. ekki með myndinni. Sennilega hefði lúðrasveitin átt að leika allan tímann; það hefði skapað sterkari heildarmynd.
Sveitin stóð sig prýðilega. Hún samanstendur aðallega af ungu áhugafólki, og því var ekki hægt að ætlast til að allt væri fullkomið tæknilega séð. Leikgleðin, galsinn og krafturinn var þó afar smitandi. Myndin sjálf var líka fyndin, ekki síst að búið var að íslenska og staðfæra skjátextana. Til að mynda kom Hveragerði við sögu og persónurnar hétu íslenskum nöfnum. Ekki var talað um suður- og norðurríkjamenn, heldur sunn- og norðlendinga, og þar fram eftir götunum. Þessi skondni texti kallaði fram hláturgusur áhorfenda aftur og aftur.
Stjórnandi var Carlos Caro Aguilera, og var hann mjög nákvæmur því hljóðfæraleikurinn passaði ávallt við það sem sást á tjaldinu. Samspil Davíðs Þórs og hljómsveitarinnar var líka skemmtilega litríkt, og sérstaklega var gaman að heyra í banjóinu, sem framkallaði andrúmsloft villta vestursins einkar vel. Heildarútkoman var eftirminnileg og frumleg; meira svona mætti svo sannarlega vera í tónlistarlífinu á Íslandi.
Niðurstaða:
Frumlegir tónleikar; skemmtileg kvikmynd með magnaðri tónlist og líflegum tónlistarflutningi.