Hnotubrjóturinn var ógleymanleg stund

5 stjörnur

Hnotubrjóturinn eftir Tsjajkovskí. Flytjendur: Hátíðarballettinn í St. Pétursborg og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Danshöfundar: Marius Petipa og Lev Ivanov. Leikmynd og búningar: Vyacheslav Okunev. Lýsing: Rainer Kornhuber.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 23. nóvember

Samkvæmt þýskri alþýðutrú á hnotubrjótur að færa heimilinu gæfu. Hann táknar styrk og ver fyrir hættu og illum öndum. Hefð var fyrir hnotubrjótum í líki dáta, konungs, skógarhöggsmanns, o.s.frv. Slík skemmtileg fígúra kallaði á líflegar umræður við gestaborðið þegar eftirréttur sem innihélt hnetur var borinn fram. Þetta er kjarninn í ballettinum eftir Tsjajkovskí sem sýndur var í Eldborginni í Hörpu á föstudagskvöldið. Hnotubrjóturinn er þar ekki bara eitthvert eldhústól, heldur máttug vera sem breytir jólunum í furðuveröld töfra og ævintýra.

Verkið var sett upp af Hátíðarballett Sánkti Pétursborgar ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem lék í gryfjunni og sást því ekki. Ballettinn var stofnaður 2009, en í borginni sem hann er kenndur við eru ballettsýningar inngróið listform. Dansflokkarnir hafa þó sjaldnast farið með sýningar sínar út fyrir borgarmörkin. Hátíðarballettinn var því stofnaður, svo aðrir en borgarbúar gætu fengið að njóta. Hann hefur ferðast víða síðan hann var stofnaður.

Sýningin á föstudagskvöldið var stórfengleg. Hún hófst á jólaboði og sviðið var fagurlega búið. Risastórt jólatré var í miðjunni og fólk í dásamlegum búningum. Síðasti gesturinn var í furðulegri múnderingu, enda töframaður, og hann bætti hnotubrjót í gjafahrúguna undir trénu. Um nóttina lifnuðu leikföngin við í draumaheimi heimasætunnar. Hún dansaði við hnotubrjótinn, sem var orðinn að fögrum prins. Við tóku mögnuð dansatriði, skreytt himneskri tónlist Tsjajkovskís. Dansararnir voru gríðarlega agaðir og samhæfðir. Hugvitsamleg lýsingin jók svo á upplifunina. Útkoman var galdraheimur lita og ótrúlega fagurra hreyfinga sem unaður var að horfa á.

Það er synd að tónskáldið fékk aldrei að upplifa hversu ballettinn varð vinsæll, því hann lést ári eftir að hann var frumfluttur. Til fróðleiks má geta að hann varð ekki gamall, aðeins 53 ára, og allskonar samsæriskenningar hafa verið uppi um dauða hans. Samkynhneigð hans olli mikilli hneykslun og ein kenningin er sú að hann hafi af þeim sökum verið þvingaður til að fremja sjalfsmorð.

Hvað um það, tónlistin er meistaraverk, ódauðlegar, grípandi laglínurnar eru óteljandi. Tsjajkovskí var snillingur í að skrifa fyrir hljómsveit, hann hafði einstaka tilfinningu fyrir því hvað virkar. Sinfónían var með allt á hreinu undir stjórn Vadim Nikitin, mismunandi hljóðfæragrúppur spiluðu hreint, svo ekki sé minnst á hörpusólóið á undan Blómavalsinum, sem var yfirmáta glæsilegt.  Í heild var samhljómurinn þéttur og safaríkur, og styrkleikajafnvægið flott. Samhæfing dansins og hljómsveitar var pottþétt og atriði þar sem kórinn Graduale Nobili söng var hástemmt og hrífandi. Hvílík upplifun!

Jónas Sen

Niðurstaða: Stórkostleg dansatriði, falleg tónlist og glæsilegur tónlistarflutningur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s