3 stjörnur
Óperusýning
Hans og Gréta eftir Engelbert Humperdinck í uppfærslu Íslensku óperunnar. Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir. Einsöngvarar: Arnheiður Eiríksdóttir, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Huildigunnur Einarsdóttir, Oddur A. Jónsson, Dóra S. Ármannsdóttir og Kristín E. Mäntylä. Gradualekór Langholtskirkju söng og Hljómsveit Íslensku óperunnar lék.
Norðurljós í Hörpu
Sunnudaginn 25. nóvember
Í hlénu á sýningu Íslensku óperunnar á Hans og Grétu á sunnudaginn var spurði kona mig á hvaða tungumáli hefði verið sungið. Ég sagði henni að það hefði verið íslenska. Hún kvað það ekki geta verið, því hún hefði ekki skilið orð. Nokkuð var til í þessu hjá henni. Söngvararnir sungu vissulega á móðurmálinu og ég sat frekar framarlega, en orðin hljómuðu samt svona: Í hlinnu á sýglu Ímlmske óbromkiu á Hans og Gremiklu e semminede…
Auðvitað þekkja allir söguna af Hans og Grétu, þau eru bláfátæk börn sem villast í skóginum og rekast á hús nornarinnar úr sætabrauði. Nornin ætlar að éta þau, en þau sjá við henni með klækjum og allt fer vel að lokum. Þrátt fyrir kunnugleikann var leiðinlegt að skilja ekki söngvarana, því textinn var heilmikill. Það að honum hafi ekki verið varpað fyrir ofan sviðið eins og gert er á sýningum í Eldborg var miður.
Tónlistin er eftir Engelbert Humperdinck. Lítil kammersveit spilaði undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, sem skapaði hlýlegt andrúmsloft. Sama ópera var flutt í Salnum í Kópavogi fyrir fjórum árum, en þá var eingöngu leikið á píanó. Það var mun kuldalegra.
Söngvararnir voru hins vegar misöflugir. Arnheiður Eiríksdóttir var í hlutverki Hans og gervið sem hún klæddist var sannfærandi. Rödd hennar var notalega ávöl og jöfn á öllum sviðum, hún var þétt og fókuseruð og hitti beint í mark. Jóna G. Kolbrúnardóttir var Gréta og fersk sviðsframkoma hennar hæfði hlutverkinu fullkomlega. Hún söng líka fallega, röddin var björt og tær, en hún á samt enn eftir að mótast og þroskast. Ákveðna fyllingu vantaði í röddina, sem á örugglega eftir að koma með tíð og tíma, því Jóna er ung að árum.
Oddur Arnþór Jónsson var glæsilegur sem faðirinn og sömu sögu er að segja um Hildigunni Einarsdóttur sem var móðirin. Söngur beggja var snarpur og tilfinningaríkur. Dóra Steinunn Ármannsdóttir var aftur á móti ekki eins trúverðug sem nornin. Röddin, þó hún hafi verið prýðileg í sjálfri sér, var ekki nægilega kröftug til að skapa áhrifamikla mynd af illgjarnri mannætu. Hún var krútt, ekki kríp.
Loks ber að nefna Kristínu Einarsdóttur Mäntylä, en hún lék Óla lokbrá. Rödd hennar var fín og bar góðum hæfileikum vitni, en frammistaðan nú var engu að síður fremur feimnisleg og hikandi.
Þessi misspennandi söngur og vöntun á texta gerðu að verkum að það var aldrei neitt sérstaklega gaman á sýningunni. Og það þrátt fyrir smekklega leikstjórn Þórunnar Sigþórsdóttur sem einkenndist af sannfærandi flæði. Leikmynd Evu Signýjar Berger og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru líka mikil listaverk, og söngur Gradualekórs Langholtskirkju var ánægjulegur. Það dugði bara ekki til. Verður því seint sagt að þetta sé með bestu uppfærslum íslensku óperunnar í gegnum tíðina.
Niðurstaða:
Falleg tónlist og flott umgjörð, en sjálfur söngurinn var illskiljanlegur og misáhrifaríkur.