María, meyjan skæra

3 og hálf stjarna

Kórtónleikar

Jólatónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju. Verk úr ýmsum áttum. Stjórnandi: Hörður Áskelsson. Einleikari: Auður Hafsteinsdóttir. Orgelleikari: Björn Steinar Sólbergsson.

Hallgrímskirkja

sunnudaginn 2. desember

„Önd mín miklar Drottinn, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“ Á þessum orðum hefst lofsöngur Maríu. Hún kveður hann í Lúkasarguðspjalli, skömmu eftir að Gabríel erkiengill hefur vitjað hennar. Líkast til er þetta elsti Maríusálmurinn og hefur hann verið tónsettur ótal sinnum. Nú var komið að Sigurði Sævarssyni að spreyta sig á honum, og var afraksturinn fluttur á jólatónleikum Mótettukórsins í Hallgrímskirkju á sunnudaginn var.

Sigurður hefur fengist við tónsmíðar í a.m.k. 20 ár. Eftir hann er m.a. óperan Z ástarsaga sem frumflutt var 2001 og Hallgrímspassía frá 2007. Í samanburðinum var Magnificat, lofsöngur Maríu, talsvert smágerðari. Verkið bjó engu að síður yfir fegurð á sinn hátt. Hljómferlið var einfalt, tónlistin lá í grunnstöðu stóran hluta tímans. Fátt gerðist því hljómfræðilega séð. Laglínan samanstóð auk þess aðallega af síendurteknum hendingarbrotum. Útkoman var sú að tónlistin var aldrei beint spennandi; framvindan í henni var svo einföld. Hins vegar voru blæbrigðin í kliðkenndri raddsetningunni fagurlega ofin, hljóðheimurinn skapaði stemningu sem var áhrifamikil. Kórinn söng einkar fallega undir stjórn Harðar Áskelssonar. Mismunandi raddir voru hreinar og snyrtilega mótaðar, samhljómurinn tær og samsvaraði sér vel.

Annar Maríusálmur sem bar heitið María, meyjan skæra var fluttur á tónleikunum. Þetta er gamalt, íslenskt kvæði, háleitt og fullt af andakt. Tónlistin var eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson. Andrúmsloftið var nokkuð dramatískara en hjá Sigurði. Áberandi var endurtekið laglínubrot krómatísks tónstiga, ekki ósvipað titillagi James Bond myndanna. Tónlistin var því mun myrkari en kvæðið, ólga var í henni sem rímaði ekki við orðin, og útkoman olli nokkrum vonbrigðum.

Þriðja forvitnilega tónsmíðin á efnisskránni var Serenity (O Magnum Mysterium) eftir Ola Gjeilo. Sveimkennd áferðin var prýðilega útfærð af kórnum. Það truflaði þó undirritaðan hve kaflar í tónlistinni minntu á kórinn í Hringadróttinssögu, fyrstu myndinni, eftir að föruneyti Hringsins sleppur út úr námunum í Moría. Auðvitað er eðlilegt að tónskáld verði fyrir áhrifum af kollegum, en þetta var fullmikið af því góða.

Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari var sólistinn á tónleikunum, og sónata í g-moll eftir Henry Eccles var glæsilega leikin af henni. Hröð tónahlaup voru akkúrat og túlkunin í heild gædd smitandi ákefð. Orgelleikur Björns Steinars Sólbergssonar var sömuleiðis nákvæmur. Eina sem hægt var að finna að varðandi hljóðfæraleikinn var í Slá þú hjartans hörpustrengi eftir Bach. Þar runnu raddir fiðlu og orgels illa saman; raddval orgelleikarans hentaði ekki hljómi fiðlunnar.

Yfirleitt voru þetta skemmtilegir tónleikar. Eins og áður segir var söngur kórsins dásamlegur, og gaman var að syngja með honum í lokin. Breidd var því í dagskránni sem var ánægjuleg, eitthvað var fyrir alla, þótt sumt hafi vissulega ekki virkað.

Niðurstaða:

Athyglisverð dagskrá þar sem fjölbreytni ríkti og söngurinn var magnaður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s