Nakið eins og íslenskt landslag

Geisladiskur

4 stjörnur

Jórunn Viðar: Söngvar. Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir.

Það fór alltaf í taugarnar á Jórunni Viðar þegar hún var kölluð kventónskáld. Hún sagðist sjálf aldrei tala um karltónskáld. Þetta er þó skiljanlegt, því í heil tuttug ár var hún eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Jórunn var brautryðjandi í þróun sönglagsins hér á landi. Þar koma nokkur atriði til. Hinn hefðbundni píanómeðleikur varð t.d. að einhverju miklu meira en undirspili hjá henni. Píanóið átti þar alltaf sína sjálfstæðu rödd á móti söngnum, og saman fléttuðust raddirnar saman og mynduðu magnaða heild.

Í lögunum eru stefin grípandi, og þau eru skemmtilega frjáls. Sum innihalda svokölluð söngles, eða recitativo, eins og tíðkast í mörgum óperum. Þetta gerir lögin þó ekki sundurlaus, þvert á móti er í þeim áhrifamikil stærð og tignarleiki.

Þjóðlegur stíll og náttúrustemning svífur yfir vötnunum í tónlistinni. Jórunn notar mikið af hreinum tónbilum, ferundum og fimmundum, og þau afklæða músíkina, ef svo má segja. Hún er nakin og tær, rétt eins og þjóðlögin og íslenskt landslag. Þetta er tónlist sem bara hefði getað verið samin á Íslandi. Ræturnar ná langt aftur í fortíð og djúpt í þjóðarsálina.

Jórunn hefði orðið hundrað ára um þessar mundir, og í tilefni af afmælinu er nú kominn út geisladiskur með mörgum laga hennar, og einnig gömlum þulum og þjóðvísum sem hún útsetti. Erla Dóra Vogler mezzósópran syngur og Eva Þyri Hilmarsdóttir leikur á píanó. Söngurinn er dramatískur og tilfinningaríkur, en túlkunin er ætíð heiðarleg. Erla Dóra greinilega elskar lögin og það heyrist. Allskonar falleg blæbrigði eru í röddinni;  þau eru jafn merkingarþrungin og sjálf orðin. Hvergi er sýndarmennska í túlkuninni.

Eva Þyri er ekki síðri á píanóið. Leikurinn er stórbrotinn og fullur af átökum, en tæknilega séð nákvæmur og agaður; allar nótur eru á sínum stað. Samspilið er pottþétt; rödd og píanó blandast saman svo úr verður sterk heild.

Mörg lögin eru forkunnarfögur. Þar má nefna Þjóðlag úr Álfhamri við ljóð eftir Guðmund Böðvarsson, eitt besta lag Jórunnar. Laglínan er grípandi og hljómar píanósins töfrum gæddir. Bí, bí og blaka er líka yndislegt, píanóröddin sem Jórunn bætti við þjóðlagið er hugljúf. Þessi lög og fleiri eru seiðandi eins og þau eru borin fram á geisladiskinum.

Eina sem hægt er að finna að er hljómurinn í upptökunum. Þær fóru fram í Hannesarholti sem er ansi dauður salur. Þetta kemur niður á söngröddinni, sem er dálítið þurr. Maður þarf því aðeins að venjast áferðinni á upptökunum. Burtséð frá því er þetta eigulegur geisladiskur; sannfærandi túlkunin er veglegur minnisvarði um snilld Jórunnar.

Niðurstaða:

Prýðilegur flutningur á frábærri tónlist.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s