2 stjörnur
Kvikmyndatónleikar
Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason við lifandi tónlist Jórunnar Viðar. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Einsöngvari: Hildigunnur Einarsdóttir. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
þriðjudaginn 11. desember
Ég man eftir að hafa orðið skelkaður þegar ég sá Síðasta bæinn í dalnum barn að aldri. Eitthvað var óhugnanlegt við illgjörn tröll sem gátu breytt sér í venjulegt fólk. Myndin, sem var eftir Óskar Gíslason eftir sögu Lofts Guðmundssonar, var sýnd á bíótónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðjudagskvöldið. Segjast verður eins og er að hún hefur ekki elst vel. Auðvitað er skiljanlegt að þessi fyrsta íslenska kvikmynd í fullri lengd, með fumsaminni, íslenskri kvikmyndatónlist, sé fátækleg miðað við það sem viðgengst í dag. Myndin var jú gerð árið 1949, þegar tæknin var frumstæð og kunnáttan hér á landi ekki mikil. Kvikmyndaleikur var óskrifað blað og eftir því tilgerðarlegur, öll framsögn afkáraleg.
Af þessum sökum var töluvert flissað í Eldborginni, og ekki bara á þeim stöðum í myndinni sem beinlínis áttu að vera fyndnir. Í sjálfu sér hefði því mátt hafa gaman af, en tónlistin gerði þá ánægju að engu. Hún var eftir Jórunni Viðar, en hundrað ár eru liðin frá fæðingu hennar um þessar mundir. Nú var upprunalega tónlistin leikin á sýningunni, önnur en sú sem síðar var notuð. Frumútgáfa myndarinnar hefur ekki varðveist og þegar hún var endurgerð með nýrri hljóðrás árið 1968 var það ekki í samvinnu við Jórunni. Notkun tónlistarinnar í myndinni, eins og hún var sýnd í sjónvarpinu á áttunda áratugnum og síðar, var því á skjön við það sem tónskáldið hugsaði sér.
Tónlist Jórunnar í Eldborginni, þó að hún hafi núna verið sú rétta, var of kurteisleg fyrir óhugnaðinn í sögunni. Hápunktar hryllingsins voru slappir og misstu marks. Húmorinn skilaði sér yfirleitt ekki heldur. Leiðarstef sem tengdust mismunandi persónum voru á köflum ofnotuð, svo tónlistin varð endurtekningarsöm og leiðgjörn. Vissulega voru fallegar melódíur innan um, og stundum skapaðist áhugaverð stemning, eins og t.d. þegar leikið var á langspil, en heildarmyndin var veik.
Jórunni lét best að semja sönglög, en samt var eitt versta augnablikið í myndinni söngur sem dúkkaði upp á furðulegum stað. Hann gerði nákvæmlega ekkert fyrir framvinduna í sögunni. Lagið var auk þess lélegt, a.m.k. í samhenginu, sönglínan náði aldrei flugi. Hildigunnur Einarsdóttir söng; rödd hennar barst illa. Útkoman var neyðarleg.
Í gegnum tíðina hefur töluvert verið um það að ný tónlist hefur verið samin við gamlar, þöglar myndir. Frábært dæmi um það var á RIFF fyrir um fimm árum síðan. Damo Suzuki, sem áður hafði verið söngvari þýsku krautsveitarinnar Can, flutti þar eigin tónlist ásamt hljómsveit við kvikmyndina Metropolis. Það var stórfengleg upplifun. Nýrra dæmi er tónleikar Lúðrasveitarinnar Svans, en þá var sýnd þögla myndin Hershöfðinginn við magnaða tónlist eftir Davíð Þór Jónsson. Síðasti bærinn í dalnum, sem óumdeilanlega braut blað í íslenskri kvikmyndasögu, og á af þeim ástæðum virðingu skilið þrátt fyrir hnökrana, býður upp á slíka nálgun.
Niðurstaða:
Frumgerð myndarinnar við upprunalegu tónlistina olli vonbrigðum.