Áramótapistill:
Heimur goðsagna og yfirnáttúrulegra fyrirbæra kom nokkuð við sögu í tónlistarlífinu á árinu sem nú er senn á enda. Draugar tengdust t.d. fiðlukonsertinum eftir Schumann sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti ásamt fiðluleikaranum Baiba Skride í byrjun mars í Hörpu. Schumann, sem var uppi á árunum 1810-1856, var haldinn geðhvarfasýki og sjúkdómurinn ágerðist eftir því sem hann eltist.
Schumann samdi konsertinn seint á ævinni, fyrir vin sinn Joseph Joachim, sem var fiðluleikari. Mjög var þá af tónskáldinu dregið. Joachim fannst konsertinn enda ekki vera upp á marga fiska, og forðaðist að flytja hann. Í staðinn kom hann handritinu fyrir í varðveislu á safni og bannaði að konsertinn yrði fluttur fyrr en hundrað árum eftir dauða Schumanns. Í framhaldinu gleymdist konsertinn og enginn vissi hvar handritið var geymt.
Víkur þá sögunni til miðilsfundar sem haldinn var árið 1933 í London. Á fundinum voru tvær systur, báðar fiðluleikarar og ættingjar Joachims. Samkvæmt þeim kom sjálfur Schumann fram á fundinum og sagði þeim frá tónsmíð eftir sig sem aldrei hefði verið flutt. Joachim framliðinn skrapp líka í heimsókn og sagði þeim frá verustað handritsins, greinilega búinn að skipta um skoðun frá því sem áður var. Systurnar fylgdu leiðbeiningunum, fundu handritið og fjórum árum síðar var konsertinn frumfluttur.
Því miður olli verkið vonbrigðum á tónleikunum í Hörpu, þrátt fyrir annarsheimlegan bakgrunninn. Sérkennileg sagan var hið eina áhugaverða við það. Laglínurnar voru stirðbusalegar og lausar við innblástur. Útkoman var lítið annað en léleg stílæfing. Bót var þó í máli að konsertinn var almennilega leikinn, fiðluleikurinn var glæsilegur og Sinfóníuhljómsveit Íslands var í essinu sínu. Það bara dugði ekki til.
Þór, Loki, Óðinn og einherjar
Annað draugalegt verk var frumflutt á árinu, sem einnig hafði lengi legið í dvala. Þetta var Edda II eftir Jón Leifs, annar hluti þríleiks sem innblásinn er af norrænni goðafræði. Þar er umfjöllunarefnið guðirnir, valkyrjurnar, ásynjurnar, nornirnar og einherjarnir, þ.e. framliðnar sálir þeirra sem deyja í orrustu. Ólíkt fiðlukonsertinum eftir Schumann var handrit Jóns ógleymt og ekki þurfti miðilsfund til að finna það. Ástæðan fyrir því hve erfiðlega gekk að fá það flutt var að Jón naut lítils meðbyrs á meðan hann lifði. Tónlist hans var töluvert á skjön við það sem þá var vinsælt, innblásin af ofbeldisfullum bókmenntaarfinum og hrjóstrugri náttúrunni. Fyrir bragðið þótti hún erfið áheyrnar.
Skemmst er frá því að segja að tónleikarnir voru magnaðir. Flutningurinn var þrunginn óhugnaði, annarleikinn í tónmálinu bókstaflega heltók mann. Vonandi verður lokahluti þríleiksins fluttur í náinni framtíð.
Hamri Þórs stolið
Óperan Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson er sömuleiðis byggð á norrænum menningararfi. Hún var borin fram í nýrri útgáfu í lok október. Jón, sem fagnaði níræðisafmæli í mánuðinum, samdi óperuna snemma á áttunda áratuginum, og var hún frumflutt árið 1974. Hún fjallar um það þegar konungur þursanna, Þrymur, stelur hamri Þórs og vill ekki skila honum aftur fyrr en hann fær Freyju, gyðju ástarinnar, fyrir eiginkonu. Þrymskviða er fyrsta íslenska óperan í fullri lengd og því var vel til fundið að endurflytja hana á stórafmæli tónskáldsins.
Sýningin var gerð af vanefnum, engir sérstakri búningar voru notaðir, ekki heldur sviðsmynd. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins spilaði og Háskólakórinn söng. Hvort tveggja var nokkuð óheflað, sem er auðvitað skiljanlegt, því ekki var um fagmenn að ræða. Einsöngvararnir voru hins vegar prýðilegir, en mestu skipti þó að sjálf tónlistin var frábær, með grípandi laglínum og sterkri stígandi. Vonandi verður Þrymskviða sett upp aftur og þá í almennilegri umgjörð.
Bill Murray og draumráðningar
Eitt stykki draugabani kom fram á tónleikum í Hörpu á árinu. Þetta var ghostbusterinn sjálfur, Bill Murray, Hollywoodstjarnan heimsþekkta. Hann var þó ekki að reka út drauga, heldur flutti hann, ásamt nokkrum hljóðfæraleikurum, blandaða dagskrá upplesturs og tónlistar. Murray söng fáein lög, en gerði það afskaplega illa, rödd hans var greinilega óskóluð. Túlkun hans var aftur á móti svo full af tilfinningu að ekki var annað hægt en að hafa gaman af.
Draugar eru stundum sagðir vitja fólks í draumi, og sungið var um slíkt tilfelli á litlum tónleikum í Hannesarholti í sumar. Umbra Ensemble, sem samanstendur af fjórum konum, hélt tónleikana. Flutt voru lög úr gömlum handritum og það áhrifamesta var Fagurt syngur svanurinn, um stúlku sem biður stjúpmóður sína að ráða drauminn sinn. Útsetning var töfrandi; vonandi verður hún aðgengileg í stafrænu formi fljótlega.
Falin skilaboð nasista í tónlist
Rétt eins og í draumum eru líka falin skilaboð í sjálfri tónlistinni, einhver dýpri merking sem erfitt er að koma orðum að. Í þúsundir ára hefur tónlist tengst hinu yfirskilvitlega. Eitt nærtækasta dæmið er sú staðreynd að tónlist er ómissandi hluti af helgihaldi kirkjunnar.
Sumir hafa einnig haldið fram að hægt sé að dulkóða skilaboð í tónlist. Á tónleikum í vor, með Sæunni Þorsteinsdóttur sellóleikara og Alexöndru Joan píanóleikara, var á efnisskránni verk eftir eitt af tónskáldunum sem sömdu svokallaða tólftónatónlist, Anton Webern. Hún var mjög ómstríð og tormelt. Þá rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkru fór um internetið orðrómur um að Schönberg, Webern og félagar hefðu unnið á laun með nasistum. Þeir hefðu komið skilaboðum til annarra njósnara í Bandaríkjunum og Bretlandi með því að dulkóða þau í tónverkum sínum.
Þegar sagan komst í hámæli mun bandaríska tónskáldið John Adams hafa sagt: „Allt frá því ég kynntist fyrst verkum Arnolds Schönberg hef ég velt því fyrir mér hvern fjandan fólk heyrði í þeim. Núna veit ég það.“
Samtímatónlist ekki lengur óþolandi
Samtímatónlist fyrir fáeinum áratugum var þessu marki brennd. Hún þótti óskiljanleg og afspyrnuleiðinleg. Þetta hefur sem betur fer breyst, þótt vissulega séu til undantekningar. Nokkur verk voru frumflutt á árinu sem voru spennandi. Eitt það stærsta var óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason á Listahátíð í Reykjavík í vor. Harpa kveður dyra, tólf blik og tónar við ljóð Snorra Hjartarsonar eftir Steingrím Þórhallsson, sem flutt var í Kristskirkju í lok vetrar, var líka hrífandi. Kvikmyndatónlist eftir Davíð Þór Jónsson við Hershöfðingja Busters Keaton var sömuleiðis skemmtileg og tónleikar Skálmaldar með Sinfóníuhljómsveit Íslands voru stórkostlegir. Það var engin dulkóðun þar, maður fékk merkingu tónlistarinnar beint framan í sig.
Í það heila var tónlistarárið sem nú er að líða viðburðaríkt og auðheyrt að íslenskt tónlistarlíf er í stórsókn. Hér er ekki pláss til að gera sérstaklega grein fyrir öllum skemmtilegu tónleikunum sem voru haldnir, en þeir voru margir. Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu og óska þeim góðra stunda á nýja árinu sem senn rennur upp.