3 og hálf stjarna
Kammertónleikar
Rannveig Marta Sarc fiðluleikari og Jane Ade Sutarjo píanóleikari fluttu verk eftir Mozart, Šenk, Brahms og Ravel.
Salurinn í Kópavogi
miðvikudagur 9. janúar
Er frelsi falið í fallegri tónlist?
Kvikmyndin The Shawshank Redemption er byggð á sögu eftir Stephen King og fjallar um mann ranglega dæmdan í fangelsi. Aðalpersónan, sem leikin er af Tim Robbins, fær það verkefni að setja upp bókasafn í fangelsinu. Hann þarf að fara í gegnum gnægð bóka og rekst þá á kassa með hljómplötum. Þar á meðal eru aríur eftir Mozart. Hann læsir þá fangavörðinn inni á klósetti, tengir kallkerfi fangelsins við plötuspilarann og leyfir föngunum að njóta tónlistarinnar um stund. Þetta er ein áhrifamesta senan í myndinni, fegurð tónlistarinnar er svo háleit að fangarnir upplifa sig frjálsa í nokkur augnablik.
Mér leið ekki ósvipað á tónleikum Rannveigar Mörtu Sarc fiðluleikara og Jane Ade Sutarjo píanóleikara í Salnum í Kópavogi á miðvikudagskvöldið. Fyrsta verkið á efnisskránni var sónata nr. 25 í F-dúr, K 377, eftir Mozart. Strax á upphafstónunum var ljóst að Rannveig, sem ég hef aldrei heyrt í áður, enda ung að árum, hafði fullt vald á fiðlunni. Hröð tónahlaup voru pottþétt, létt og leikandi, skýr og jöfn. Laghendingar voru fagurlega mótaðar og stemningin í túlkuninni í einu og öllu í anda tónskáldsins. Sömu sögu er að segja um píanóleikinn. Fimir fingurnir þutu um hljómborðið eins og ekkert væri. Síðasti kaflinn er fremur innhverfur, og hann var svo fallegur í meðförum tónlistarfólksins, leikinn af þvílíkri alúð og væntumþykju að maður hreinlega komst við.
Næsta verk var allt öðruvísi. Þetta var Quasso eftir Ninu Šenk, sem er samtímatónskáld frá Slóveníu. Andrúmsloftið var óhugnanlegt og átakamikið. Maður sá fyrir sér stemninguna í Shawshank fangelsinu EFTIR að fangarnir eru búnir að hlýða á Mozart og komnir aftur í ískaldan veruleikann. Leikur tvímenninganna var vandaður, spennuþrunginn og grípandi. Fjölbreytileg blæbrigð voru útfærð af smekkvísi, tónmálið var litríkt í ljótleika sínum, alltaf áhugavert.
Sónata í G-dúr eftir Brahms var nokkuð síðri. Tónlist Brahms er munúðarfull og á að vera mikil og voldug í framsetningu. Hér var píanóleikurinn heldur hæverskur, breiddina vantaði í hann, stundum tilfinnanlega. Fiðluleikurinn var vissulega líflegur og túlkunin í rétta stílnum, en það var ekki nóg og verkið náði aldrei flugi.
Tzigane eftir Ravel, lokaatriði dagskrárinnar, kom yfirleitt vel út, en þar er fiðlan í aðalhlutverki. Ofsafenginn inngangurinn hjá Rannveigu var að vísu ekki alveg hreinn, en það sem á eftir kom var flott, þó léttleikinn og svo krafturinn hefði mátt vera meiri, bæði hjá fiðluleikara og píanóleikara. Hápunktarnir eiga að vera þannig að allt verður brjálað, sem gerðist aldrei beint.
Burtséð frá þessu voru þetta skemmtilegir tónleikar sem bera vitni um ríkulega hæfileika og er tilhlökkunarefni að fylgjast með þeim stöllum í framtíðinni.
Niðurstaða:
Stórbrotinn hljóðfæraleikur hitti oftast í mark.