Í veröld þar sem allt er svo gott

4 stjörnur

Sinfóníutónleikar

Verk eftir Jóhann Strauss yngri og fleiri. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Stjórnandi: Christian Kluxen. Einsöngvarar: Sveinn Dúa Hjörleifsson og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 10. janúar

Í haust dúkkaði upp á Facebook mynd af mismunandi tegundum höfuðverks. Myndin sýndi fjögur mannshöfuð með rauðum flekkjum sem táknuðu staðsetningu verkjanna. Þarna var mígreni, of hár blóðþrýstingur og streita. Sá versti, þar sem rauði liturinn var alls staðar, var jólatónlist í október. Jólalögin byrja nefnilega snemma; strax um haustið er síbyljan farinn að hljóma alls staðar og maður fær nístandi höfuðverk.

Hvað mega þá Vínarbúar segja? Dónarvalsinn eftir Jóhann Strauss yngri, sem var leikinn á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, er spilaður út um allt þar í borg. Og ekki bara í október, nóvember og desember. Það kveður svo rammt að því að valsinn hefur verið kallaður annar þjóðsöngur Austurríkisbúa. Hið merkilega er að hann sló ekki í gegn þegar hann var frumfluttur árið 1867, en það var í kórútsetningu. Textinn var brandari sem var ætlaður til að hressa Austurríkisbúa og fá þá til að hlæja, en þeir höfðu tapað stríði nokkru áður og voru í illu skapi. Þetta misheppnaðist, en þegar valsinn var leikinn aðeins síðar í hljómsveitarbúningi, varð allt vitlaust og hefur verið það síðan.

Flutningurinn var glæsilegur á tónleikunum. Sömu sögu er að segja um annað á efnisskránni, sem var hefðbundin Vínartónlist. Þarna var Keisaravalsinn, forleikir að óperettum, Ungverskur dans og margt fleira eftir ýmis tónskáld. Strauss yngri átti þó megnið af verkunum. Hljómsveitin var í banastuði, samspilið var nákvæmt. Styrkleikajafnvægið var prýðilegt, túlkunin einkenndist af viðeigandi léttleika og krafti undir öruggri stjórn Christian Kluxen.

Tveir einsöngvarar komu fram, þau Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran. Sá fyrrnefndi stóð sig nokkuð vel, var reyndar betri fyrir hlé. Eftir það dalaði hann örlítið, söngurinn hefði þá mátt vera hreinni og þróttmeiri. Rödd hans var samt falleg í sjálfri sér, því er ekki að neita. Hrafnhildur var fókuserðri allan tímann og má segja að hún hafi slegið eftirminnilega í gegn á tónleikunum. Röddin var kröftug, en einnig mjúk, breið og fögur; túlkun hennar var í hvítvetna þrungin aðdáunarverðri einlægni og grípandi tilfinningu. Spennandi verður að fylgjast með þessari ungu söngkonu í framtíðinni.

Fjórir dansarar voru augnayndi á tónleikunum, en það voru þau David Klar, Denise Margrét Yaghi, Helga Sigrún Hermannsdóttir og Þorkell Jónsson. Dansararnir settu tónlistina í rétt samhengi og undirstrikuðu stemninguna, enda var þeim ákaft fagnað. Pörin svifu um sviðið, danshreyfingarnar voru gæddar smitandi þokka og yndisleik. Lýsingin á tónleikunum var líka flott, hugvitsamleg litasamsetning skapaði ómótstæðilegan galdur. Heildarútkoman var sú að manni leið eins og í öðrum heimi þar sem nágrannar syngja í gluggum, og gangandi vegfarendur stíga dansspor af minnsta tilefni. Í þannig veröld er gott að vera.

Niðurstaða:

Hrífandi dagskrá með skemmtilegri tónlist.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s