Ævintýraleg tónlist sem kom stöðugt á óvart

4 og hálf stjarna

Kammertónleikar

Verk eftir Prókofíef, Servais – Ghys, Schnittke og Bartók. Flytjendur: Ari Þór Vilhjálmsson, Sigurbjörn Bernharðsson, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Sigurgeir Agnarsson og Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 20. janúar

Ekki veit ég afhverju ljóð Bjarna Thórarensen, Eldgamla Ísafold, hefur verið sungið við breska þjóðsönginn. Hann heitir God Save the Queen, en var skrumskældur í Þorskastríðinu og þá kallaður Cod Save the Queen! Lagið hljómaði á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Norðurljósum Hörpu á sunnudaginn, en við það sömdu Belgarnir Adrien-Francois Servais og Joseph Ghys tilbrigði.

Servais var einn mesti sellóleikari 19. aldar og það heyrist á sellópartinum í verkinu, sem krefst ofurmannlegrar tækni. Ekki síðri var Ghys á fiðluna, enda er fiðlurullan í svipuðum dúr. Þeir Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari og Sigurgeir Agnarsson sellóleikari fluttu tónsmíðina og gerðu það af fádæma glæsileik. Spilamennskan var hrein og jöfn þrátt fyrir ofsahraða, en að sama skapi þrungin ótrúlegum sprengikrafti. Tónlistin sem slík er þó ekki sérlega innihaldsrík, hún er fyrst og fremst ætluð til að sýna tæknigetu flytjendanna, en ef hún er fyrir hendi þá er útkoman eins og sirkusatriði. Sú var raunin hér.

Dagskrá tónleikanna var í heild áhugaverð. Sónata fyrir tvær fiðlur eftir Prókofíev heyrist sárasjaldan á tónleikum hérlendis, en auk Ara Þórs lék Sigurbjörn Bernharðsson á fiðlu. Tónmálið var spennandi, framvindan ævintýraleg og kom sífellt á óvart. Samspil fiðluleikaranna var nákvæmt, helst mátti finna að örlítið óhreinum tónum Sigurbjörns ofarlega í skalanum, en í heild var túlkunin litrík og fallega mótuð.

Ekki síðri var hinn forvitnilegi píanókvartett nr. 1 eftir Schnittke, en þar léku Sigurgeir og Sigurbjörn ásamt Þórunni Ósk Marinósdóttur víóluleikara og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara. Kvartettinn  er hugleiðing um uppkast að kammerverki eftir Mahler, sem hann byrjaði á á táningsaldri en missti svo áhugann á að klára. Verk Schnittkes er sem sagt nokkurs konar tilraun til að ljúka við verk Mahlers. Tónmál meistaranna fléttast því saman og útkoman er verulega átakamikil, enda um mjög ólíka nálganir að ræða. Mahler er blátt áfram og tær, en Schnittke myrkur og ógnandi. Spilamennskan einkenndist af prýðilegu jafnvægi í samspili, túlkunin var markviss og hnitmiðuð, stórbrotin og lifandi. Hvergi var dauður punktur. Fjömargir hápunktar voru gæddir óvanalegum ákafa, útfærðir af aðdáunarverðri fagmennsku og öryggi. Maður fékk gæsahúð aftur og aftur.

Aðeins syrti í álinn eftir hlé, en þá var ein stór tónsmíð á dagskránni, Píanókvintett nr. 1 eftir Bartók. Ekkert var upp á flutninginn að klaga, sem var tæknilega pottþéttur og vel unninn. Tónlistin sjálf var hins vegar ekki sérlega bitastæð, enda um að ræða æskuverk Bartóks, samið áður en hann var búinn að þróa sinn persónulega stíl. Tónlistin var því risavaxin málamiðlun, fyrst og fremst eitthvað sem Bartók taldi að áheyrendur vildu heyra, fremur en það sem honum sjálfum lá á hjarta. Engu að síður var kvintettinn saminn af kunnáttu og hæfileikum, og því mátti hafa gaman af, þótt efniviðurinn væri rýr.

Niðurstaða:

Óvanalega safarík dagskrá og flutninguinn var magnaður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s