Frá Akureyri til Hollywood

3 og hálf stjarna

sinfóníutónleikar

Verk eftir Dvorák, Atla Örvarsson og Rimskí-Korsakoff. Einleikari: Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir. Stjórnandi: Guðmundur Óli Gunnarsson.

Hof á Akureyri

sunnudaginn 24. mars

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni voru haldnir hátíðartónleikar í Hamraborginni í Hofi á Akureyri um helgina. Fyrir hlé var aðeins eitt verk á efnisskránni, sellókonsertinn eftir Dvorák. Ekki vita margir að hann er í rauninni annar sellókonsert tónskáldsins. Sá fyrri er ókláraður og hefur væntanlega verið tilraun sem ekki heppnaðist. Seinni konsertinn er einstaklega fallegur. Hann skartar seiðandi laglínum og viðburðarríkri atburðarrás með mögnuðum hápunktum.

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir lék einleikinn en Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnaði. Hún spilaði af kostgæfni. Túlkun hennar var tilfinningarík og grípandi. Tæknilegar hliðar leiksins voru vandaðar og fagmannlegar. Hraðar tónarunur voru skýrar og meitlaðar, sönglínurnar breiðar og fagurhljómandi. Hljómsveitin spilaði líka ágætlega, samspilið var yfirleitt tært og nákvæmt. Helst mátti finna  að styrkleikajafnvæginu; blásararnir yfirgnæfðu stundum strengina, sem gerði heildarmyndina dálítið einkennilega á köflum.

Á tónleikunum var  verkefni sem nefnist Sinfonia Nord formlega hleypt af stokkunum. Þar er framleiðendum kvikmynda boðið upp á upptökur með sinfónískri tónlist. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, sviðsstjóri tónlistar hjá Menningarfélagi Akureyrar, og Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld hafa leitt verkefnið. Sinfonia Nord hefur reyndar þegar hafið starfsemi, og selt upptökur til risanna í Hollywood. Þær hafa komið vel út. Þetta er spennandi verkefni og frábært tækifæri fyrir starfandi hljóðfæraleikara á Íslandi.

Atli átti einmitt eina tónsmíðina  á tónleikunum, sem bar nafnið Under the Surface. Kvikmyndatónlist virkar ekkert endilega á tónleikum þegar myndefnið vantar. Hér var myndbandi þó varpað á stóran skjá yfir hljómsveitinni. Það sýndi vatn í allskonar myndum. Tónlistin var ábúðarfull og alvörugefin, óx frá hljóðlátum hendingum upp í risavaxinn hápunkt. Hún passaði fullkomlega við myndskeiðið.

Lokaverkið á tónleikunum var Scheherazade eftir Rimskí-Korsakoff. Nafnið er dregið af aðalpersónunni í arabíska sagnabálkinum Þúsund og ein nótt, sem segir sögurnar til að halda lífi. Eiginmaður hennar á harma að hefna og ætlar að ná sér niður á eins mörgum konum og hann getur.  Fiðla konsertmeistarans táknar Scheherazade, rödd hennar er einmannaleg og biðjandi, og hún er rauði þráður tónsmíðarinnar. Gréta Salóme Stefánsdóttir var í þessu hlutverki; leikur hennar var áleitinn og tilfinningarþrunginn. Engu að síður var flutningurinn á tónlistinni ekki sérlega bitastæður. Samhljómur strengjanna var ekki nægilega fókuseraður og túlkunin almennt býsna þunglamaleg og eftir því langdregin. Hægi kaflinn var ansi teygður og fyrir bragðið náði hann aldrei flugi. Vissulega voru flott augnablik í tónlistinni, en heildarmyndin hefði mátt vera straumlínulagaðri til að virka sannfærandi.

Þetta kemur á óvart, því Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er góð hljómsveit, eins og hún hefur sýnt aftur og aftur. Kannski voru æfingar ónógar; undirritaður frétti að veðrið fyrir helgi hefði sett strik í reikninginn. Hljómsveitin stóð sig sannarlega með ágætum á kvikmyndatónleikunum í fyrra með Hringadróttinssögu. Hún hefur því alla burði til að sinna nýja verkefninu sínu með miklum sóma í framtíðinni.

Niðurstaða:

Einleikurinn var góður og nýtt verk eftir Atla Örvarsson var áhrifaríkt, en túlkunin annars staðar heppnaðist ekki sem skyldi.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s