Star Wars flott eftir byrjunarörðugleika

3 og hálf stjarna

Star Wars: A New Hope við lifandi tónlistarflutning. Ted Sperling stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 4. apríl

Bíósýningar við lifandi tónlistarflutning hafa tíðkast á Íslandi í allmörg ár. Lengi vel var fókusinn á gamlar svarthvítar myndir, oft þöglar, þar sem textarammar birtast með reglulegu millibili. Í hittifyrra var þó fyrsta myndin úr Lord of the Rings þríleiknum sýnd við leik Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt kór, og í fyrra var komið að annarri myndinni. Undirritaður sá báðar sýningarnar, en sat á mismunandi stað. Staðsetningin hafði gífurleg áhrif á skemmtanagildið. Skjárinn sem var fyrir ofan hljómsveitina var furðulítill miðað við hvað Eldborgin er stór. Hann var svo hátt uppi að maður fékk hálsríg niðri í sal, en allt var í lagi uppi á svölunum.

Nú kann einhver að benda á að þetta hafi verið tónleikar en ekki bíósýning; myndin hafi verið aukaatriði. Sá málflutningur heldur ekki vatni; tónlistin er sköpuð í myndrænu samhengi, henni er ætlað að styðja við frásögnina á skjánum. Án hins sýnilega er tónlistin þunnur þrettándi. Þetta er ástæðan fyrir því að tónleikar með kvikmyndatónlist án myndefnis eru gjarnan endurtekningasamir og flatir.

Að þessu sinni var fyrsta myndin úr Star Wars sýnd við leik Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Tónlistin er eftir John Williams, sem kalla má hirðtónskáld Stevens Spielberg. Hún er lagræn og litrík, fullkomlega raddsett fyrir hljómsveit, og undirstrikar prýðilega allt sem gerist í sögunni. Ekki margir vita að fyrirmynd tónskáldsins að tónlistinni var fyrsti kaflinn úr Plánetunum eftir Gustav Holst. Hann var stjörnuspekingur í frístundum sínum og fyrsti kaflinn er um plánetuna Mars, og stríðsguðinn sem hún heitir í höfuðið á. Oft er notað svokallað „temp track“ í kvikmyndum þegar þær eru enn á vinnslustigi og tónlistin við þær hefur enn ekki verið samin. Mars eftir Holst var í slíku hlutverki í Star Wars.

Tónleikarnir á fimmtudagskvöldið tókust ágætlega. Hljómsveitin var að vísu nokkra stund að komast almennilega í gang, málmblásturinn í upphafi var dálítið klaufskur og þunglamalegur. Þar sem tónlistin var ekki hljóðblönduð inn í myndina átti hún það til að yfirgnæfa talið, en þar sem myndin var textuð gerði það lítið til. Eftir byrjunarörðugleikana var leikur hljómsveitarinnar undir stjórn Teds Sperling kraftmikill og líflegur, með hnausþykkum strengjum, grípandi slagverki og björtum málm- og trébæstri. Heildarhljómurinn var safaríkur og áleitinn og féll afar vel að myndinni. Tónlistin var líka tímasett af nákvæmni, en þar kom tölvutæknin til hjálpar; Sterling var með stóran iPad á nótnapúltinu og bendingar á skjánum gáfu til kynna hvenær næsta atriði átti að hefjast, og í hvaða takti. Útkoman var ávallt spennandi og skemmtileg, a.m.k. á neðstu svölunum í Eldborginni.

Niðurstaða:

Star Wars var mögnuð á bíótónleikum Sinfóníunnar, en staðsetning sætis skipti miklu máli.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s