4 stjörnur
Lög eftir Brahms og Schumann. Flytjendur: Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, Hanna Dóra Sturludóttir, Þorsteinn Freyr Sigurðsson, Fjölnir Ólafsson, Hrönn Þráinsdóttir og Matthildur Anna Gísladóttir.
Norðurljós í Hörpu
sunnudagur 7. apríl
Í Einræðisherranum leikur Charlie Chaplin m.a. rakara. Hreyfingar hans eru fullkomlega í takt við músíkina úr útvarpinu. Það er ungverskur dans nr. 5 eftir Brahms. Í myndinni spilar sinfóníuhljómsveit, en upphaflega útgáfan var fyrir píanó þar sem tveir píanóleikarar leika fjórhent á sama hljóðfærið.
Brahms samdi 21 slíkan dans; stemningin þar er létt, en líka spennuþrungin og ástríðufull. Andrúmsloftið var svipað í átján „Ástarljóðavölsum“ sem fluttir voru á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn. Rétt eins og í Ungversku dönsunum spiluðu tveir píanóleikarar á sama flygilinn, þær Hrönn Þráinsdóttir og Matthildur Anna Gísladóttir. Með þeim sungu fjórir söngvarar. Þetta voru Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran, Hanna Dóra Sturludóttir mezzó-sópran, Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór og Fjölnir Ólafsson baritón.
Sungu mjög fallega
Ljóðin voru úr ýmsum áttum en tengdust öll ástinni á einhvern hátt. Tónlistin var draumkennd og fögur, en einnig kraftmikil og stórbrotin. Söngvararnir sungu afar fallega. Samsöngurinn var í prýðilegu styrkleikajafnvægi og raddirnar blönduðust ágætlega saman, svo úr varð þéttur og breiður hljómur. Túlkunin var ávallt sannfærandi, bæði hjá söngvurum og píanóleikurum. Andi skáldskaparins sveif yfir vötnunum, og tónlistin kom honum til skila með áhrifaríkum hætti.
Hinn ljóðaflokkurinn, Spænskur ljóðaleikur, var eftir Schumann. Hann var ekki eins samfelldur, því lögin voru fyrir mismunandi raddir, ýmist eina eða fleiri saman. Ljóðin voru öll ættuð frá Spáni. Píanóleikararnir skiptust á að spila og kom það yfirleitt vel út. Helst mátti finna að því að meðleikurinn í fyrsta laginu var helst til sterkur. Þar var það Fjölnir sem söng, og rödd hans drukknaði stundum í píanóleiknum.
Mögnuð stígandi
Fjögur einsöngslög voru á dagskránni auk lagaflokkanna, tvö eftir Brahms og hin eftir Schumann. Þau voru rafmögnuð í meðförum söngvaranna. Hrafnhildur hefur ákaflega bjarta og tæra rödd sem miðlaði meiningu tónskáldsins af mikilli tilfinningadýpt. Svipaða sögu er að segja um hina söngvarana, sem allir voru með tæknileg atriði á hreinu, fókuseraðan tón og óhefta túlkun. Sérstaka aðdáun vakti flutningur Fjölnis á Von ewiger Liebe eftir Brahms, en túlkun hans einkenndist af magnaðri, tignarlegri stígandi. Ýmist maður eða kona hefur orðið í ljóðinu og í takt við það var söngur Fjölnis gæddur fjölbreyttum blæbrigðum sem virkuðu ætíð eðlilega. Útkoman var óvanalega sterk og tilkomumikil.
Píanóleikararnir stóðu sig vel, leikur þeirra var nákvæmur og agaðar, en um leið snarpur og lifandi. Ég tók eftir því að þær Hrönn og Matthildur áttu í basli við nótnabækurnar, sem voru alltaf að lokast vegna þess hvernig þær voru bundnar inn. Alveg er það furðulegt að útgefendur nótnabóka skuli ekki vanda betur til verka. Fínir píanóleikarar eiga betra skilið.
Niðurstaða:
Sérlega vandaðir tónleikar þar sem tónlistin var skemmtileg og flutningurinn glæsilegur.