4 stjörnur
Verk eftir Mahler og Brahms. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. Einleikari: Isabelle Faust. Stjórnandi: Osmo Vänskä.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 11. apríl
Í gamanþáttaröðinni um Frasier er sena þar sem bróðir hans, Niles, er að skilja við konuna sína. Hann talar af eftirsjá um sunnudagsmorgnana í fallegu stofunni, þar sem hann sat við flygilinn og spilaði Mahler fyrir eiginkonuna. Þá segir Frasier við hann: „Já, vissulega spilaðirðu Mahler. En þú hatar Mahler! Fyrir utan konuna þína, hver gerir það ekki?“
Mér datt þetta í hug á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Á dagskránni var tíunda sinfónía Mahlers, sem tekur um áttatíu mínútur í flutningi. Það er svona álíka og fjórir þættir um Frasier. Maður hlær þó að honum, nokkuð sem gerist ekki á meðan sinfónían eftir Mahler er leikin. Hún er gríðarlega langdregin.
Konan hélt framhjá
Mahler lauk ekki við þessa sinfóníu. Hann var reyndar búinn að semja hana til fulls þegar hann lést, en meiri parturinn var bara til í píanóútgáfu. Það átti eftir að útsetja hana fyrir hljómsveit. Verkið er mjög tregafullt, enda samið þegar Mahler var að ganga í gegnum hræðilega erfiðleika í einkalífinu. Hann uppgötvaði fyrir tilviljun að konan sín átti í ástarsambandi við ungan arkítekt, og heimurinn hrundi. Hann upplifði þvílíkt svartnætti að hann leitaði sér hjálpar hjá Sigmund Freud – átrúnaðargoði Frasiers. Síðasti kaflinn í tíundu sinfóníunni er einhver þunglyndislegasta tónlist sem um getur, og hún tekur heila eilífð.
Verkið er vissulega tilkomumikið. Þar eru engar málamiðlanir, grunnhugmyndirnar fara í gegnum ótrúlega fjölbreytt hljómferli, samspil ólíkra radda er litríkt, stígandin margþætt, hápunktarnir tignarlegir. Sjálfar grunnhugmyndirnar eru þó ekkert sérstaklega grípandi, laglínurnar eru fremur fráhrindandi. Þegar undirstaðan er þannig þá er ekki við miklu að búast. Á vissan hátt er þetta ys og þys út af engu. Kannski er ástæðan sú að Mahler kláraði ekki verkið sjálfur, heldur var það annar sem vann það upp úr píanóútgáfunni. Ekki er víst að tónskáldið hefði verið sátt við útkomuna.
Þorir ekki að óhlýðnast
Í öllu falli var leikur Sinfóníuhljómsveitar Íslands glæsilegur undir stjórn Osmo Vänskä. Helst mátti finna að óhreinum hornablæstri á stöku stað, en samspilið var tært. Strengirnir voru þykkir og yfirleitt tandurhreinir, aðrir hljóðfærahópar voru oftast flottir. Slagverkið var í essinu sínu og ógnarleg högg í síðasta kaflanum voru áhrifarík. Í það heila var hljómsveitin upp á sitt besta, enda Vänskä enginn venjulegur stjórnandi. Hann var tígulegur á pallinum, teinréttur og valdmannslegur; bendingar hans voru sérlega skýrar og ákveðnar. Þetta er náungi sem maður vogar sér ekki að óhlýðnast.
Aðeins ein önnur tónsmíð á var á efnisskránni, fiðlukonsertinn eftir Brahms. Ólíkt sinfóníunni eftir Mahler er fullt af fallegum, lokkandi laglínum í konsertinum, og einleikarinn, Isabelle Faust, miðlaði þeim til áheyrenda af gríðarlegri fagmennsku. Leikur hennar var heiðarlegur og án tilgerðar, skapmikill og stórbrotinn. Tæknilega séð var spilamennskan glæsileg, en tæknin var ávallt í þjónustu skáldagyðjunnar og laut henni. Fyrir bragðið flæddi tónlistin án nokkurra hindrana. Brahms átti óneitanlega vinninginn þarna um kvöldið.
Niðurstaða:
Ógnarlöng sinfónía eftir Mahler var vel spiluð og fiðlukonsertinn eftir Brahms frábær.